Fara í efni
Íþróttir

Dansað og hlaupið á skautum um helgina

Akureyrskir keppendur í fullorðinsflokki á síðasta Íslandsmótinu í hraðhlaupi á skautum árið 1961. Frá vinstri: Sigfús Erlingsson, Skúli Ágústsson, Jón Dalmann Ármannsson, Ingólfur Ármannsson, Birgir Ágústsson, Sveinn Kristdórsson, Örn Indriðason, sem sigraði í öllum greinum, og Hjalti Þorsteinsson. Ljósmynd: Gunnlaugur P. Kristinsson/Minjasafnið á Akureyri

Um helgina verður dansað á skautum og hlaupið sem hraðast einnig í Skautahöllinni á Akureyri. Fram undan er Vormót ÍSS á listskautum, sem er árlegur viðburður hjá sambandinu, en að auki verður keppt til Íslandsmeistaratitils í skautahlaupi í fyrsta skipti frá 1961. Þá verður einnig í fyrsta skipti keppt til Íslandsmeistara í skautaati (Short Track) á Íslandi.

Vormótið hefst í bítið á laugardag og stendur fram í hádegi á sunnudag. Keppt er í mörgum aldursflokkum, frá sex ára og yngri upp í fullorðins flokka. Á laugardag byrja þau yngstu kl. 8 að morgni, en dagskrá laugardagsins lýkur með verðlaunaafhendingu kl. 18-19. Á sunnudag hefst keppni kl. 9 og lýkur með verðlaunaafhendingu kl. 12:36-13:06.

Skautameistari í 64 ár!
 
Samhliða Vormótinu verður keppt til Íslandsmeistaratitils í skautahlaupi og verður það í fyrsta skipti frá árinu 1961 sem Íslandsmeistari í skautahlaupi verður krýndur.
 
 
Systkinin Edda og Örn Indriðason, bestu skautahlauparar landsins á árum áður. Úrklippa úr Tímanum frá því í febrúar 1980.
Örn Indriðason vann allar vegalengdir sem keppt var í árið 1961, það er í 500, 1.500, 3.000 og 5.000 metra skautahlaupi, en þá var keppt utanhúss. Örn var útnefndur Skautameistari Íslands. Á Vetraríþróttahátíð 1980 var einnig keppt í skautahlaupi þó ekki væri um Íslandsmót að ræða. Örn gerði sér lítið fyrir og vann bæði 500 og 1.000 metra hlaupið 1980. Það má því segja að hann hafi verið ríkjandi Íslandsmeistari og Skautameistari Íslands frá 1961 eða í 64 ár! Líklega lengsta tímabil sem íþróttamaður hefur haldið titlinum Íslandsmeistari í nokkurri grein íþrótta. En það breytist á laugardaginn, nýr Íslandsmeistari verður krýndur.
 
 
Vormót ÍSS á listskautum er árlegur viðburður hjá Skautasambandi Íslands. Mótið verður á Akureyri um helgina en myndin er tekin á móti á vegum Skautafélags Akureyrar fyrir nokkrum árum. ynd: Björn Elvar Björnsson
Edda Indriðadóttir, systir Arnar, á enn Íslandsmet í öllum vegalengdum, 500, 1.500, 3.000 og 5.000 metra hlaupi. Björn Baldursson á enn Íslandsmet í sömu greinum í karlaflokki.
 
Auk skautahlaupsins verður einnig keppt í annarri útgáfu skautahlaups, skautaati (Short Track) og verðu það fyrsta keppni í þessari grein á Íslandi. Keppt verður í langri vegalengd á laugardegi og stuttri á sunnudegi, þar sem einnig verður krýndur Íslandsmeistari í samanlögðum úrslitum úr báðum vegalengdum.
 
Skautahlaup var vinsæl íþróttagrein á Akureyri á sínum tíma og hefur akureyri.net nokkrum sinnum fjallað um skautahlaup á Akureyri og sögu þess í máli og myndum, eins og sjá má eftirtöldum greinum: