Fara í efni
Pistlar

Dagur umhverfisins – Tuttugu árum síðar

Dagur umhverfisins er þann 25. apríl. Fyrir nákvæmlega tuttugu árum síðan, þann 25. apríl árið 2002, kom út bókin „Grænskinna – Umhverfismál í brennidepli“ sem ég ritstýrði í samvinnu við þau Árna Finnsson, Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur og Ara Trausta Guðmundsson. Það er fróðlegt að fletta í gegn um þessa bók í dag og velta fyrir sér stöðunni nú miðað við þá. Hvað hefur áunnist? Hvar stöndum við í stað? Hverju höfum við tapað?

Árið 2002 voru íbúar jarðar um 6,2 milljarðar. Tuttugu árum síðar nálgast fjöldinn 8 milljarða.

Loftslagsbreytingar voru komnar á dagskrá alþjóðasamfélagsins árið 2002 en það gekk illa að ná þeim slagkrafti sem til þurfti til að ráðast í raunverulegar breytingar. Á þessum tíma hafði meðalhiti jarðar þegar hækkað um 0,6°C en nú, tveimur áratugum síðar, er hækkunin komin upp í 1.1°C. Það er þyngra en tárum taki að horfast í augu við hversu hægt hefur gengið að fá þjóðir heims að bregðast við þeirri vá sem stafar af loftslagsbreytingum þrátt fyrir að hin vísindalega þekking hafi legið fyrir í nokkra áratugi.

Einn kafli í Grænskinnu fjallaði um líffræðilega fjölbreytni og mikilvægi regnskóga. Rannsóknir benda til að stærsti regnskógur Jarðar, Amazon regnskógurinn, hafi minnkað um allt að 8% frá aldamótum og tap líffræðilegs fjölbreytileika er áfram einn alvarlegasti vandi sem við stöndum frammi fyrir sem mannkyn. Fleira dæmi mætti nefna, sem sýna að þrátt fyrir góða vitneskju um ástand jarðar þegar bókin kom út, og þær hættur sem væru í sjónamáli, hafi vistkreppa Jarðar haldið áfram að dýpka.

En hefur eitthvað áunnist þessi tuttugu ár? Í Grænskinnu var líka fjallað um möguleg tækifæri, ekki síst í íslensku samhengi. Sérstakur kafli fjallaði um möguleikann á orkuskiptum í samgöngum. Þar hefur mikið gerst síðustu 20 árin bæði hvað varðar tækniþróun og aukinn skilning á að kerfisbreyting þurfi að eiga sér stað. Rafbíll er t.d. orðinn raunhæfur valkostur fyrir hinn almenna borgara og víðtæk sátt virðist ríkja um þörfina á að hraða sem mest orkuskiptum í samgöngum.

Í kafla um ferðaþjónustu var bent á að íslensk náttúra væri ekki aðeins auðlind sem hægt væri að nýta með beinum hætti fyrir orkuvinnslu eða iðnaðarframleiðslu heldur gæti vernd náttúrunnar líka haft jákvæð efnahagsleg áhrif, t.d. sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þegar Grænskinna kom út var fjöldi erlendra ferðamanna um 200.000 á ári en síðan þá hefur orðið alger sprenging í fjölda ferðamanna til Íslands. Allar kannanir sína að það er einmitt hin íslenska náttúra sem er stærsti segullinn sem dregur erlenda gesti til landsins.

Umhverfismál fyrirtækja voru líka umfjöllunarefni í Grænskinnu og á því sviði held ég að sé óhætt að segja að hafi orðið mikil viðhorfsbreyting og þróun til góðs að því leyti að fyrirtæki eru mun meðvitaðari um samfélagsábyrgð sína og þeirra hlutverk í að takast á við þann vanda sem blasir við, t.d. í tengslum við loftslagsbreytingar.

Ef ég hugsa um heildarmyndina og hvað hefur breyst síðan árið 2002 þá finnst mér að almennt hafi þekking aukist og viðhorfin hafi þróast í rétta átt. Fleiri skynja mikilvægi málaflokksins og eru tilbúnir í breytingar. Þessar viðhorfsbreytingar hafa hins vegar tekið allt of langan tíma og raunverulegar breytingar í umgengni við náttúruna eru langt í frá eins umfangsmiklar og þörf er á. Kannski hefur baráttan leitt til þess að eitthvað hafi hægst á neikvæðri þróun en það er enn langt í land að okkur hafi tekist að snúa vörn í sókn.

Hvernig ætli staðan verði árið 2042? Vonandi get ég skrifað pistil eftir tuttugu ár um djúpstæðar breytingar, ekki bara á viðhorfum, heldur líka á hegðun, sem hafi leitt til raunverulegra breytinga til batnaðar á stöðu mála í umhverfismálum, bæði heima fyrir og á heimsvísu.

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00