Býr í þér meistari í brauðtertugerð?
Íslandsmótið í brauðtertugerð fer fram í sumar, haldið af Sögum útgáfu í samstarfi við Brauðtertufélag Erlu og Erlu sem er Facebookhópur með á átjánda þúsund meðlimi. Öllum er velkomið að taka þátt og þau sem gera brauðtertu fyrir keppnina geta átt von á að hún endi í bók.
Tveir keppnisdagar hafa verið haldnir í Reykjavík og nú er komið að Akureyrarsvæðinu því keppni verður haldin í Hlíðarbæ skammt norðan Akureyrar næsta sunnudag, 28. júlí.
„Við erum mjög spennt og treystum á að fá eitthvað alveg einstakt á Akureyri, eitthvað sem við höfum jafnvel ekki séð áður,“ segir Erla Hlynsdóttir frá Brauðtertufélagi Erlu og Erlu sem er einn dómara.
Sigurvegarinn mun hreppa titilinn Íslandsmeistari í brauðtertugerð 2024 en einnig verða veitt verðlaun í öðrum flokkum, og eru verðlaunin einkar glæsileg.
- Íslandsmeistarinn fær að launum gjafabréf að verðmæti 120.000 kr frá Icelandair
- Fyrir fallegustu brauðtertuna: Gjafabréf að verðmæti 15.000 kr frá Jómfrúnni
- Fyrir bragðbestu brauðtertuna: Martusa, sikileysk ólífuolía beint frá bónda. 5 lítrar
- Fyrir frumlegustu brauðtertuna: Bretti frá Kokku, tilvalið fyrir brauðtertur.
- Sérstök aukaverðlaun, fyrir brauðtertu sem aðstandendur keppninnar mæla með að para með kampavíni: Kampavín, Drappier Brut Nature frá Sante
Enn er hægt að skrá sig í keppnina, með því að smella hér https://shorturl.at/C88aw
Bók tileinkuð brauðtertum
Þátttakendur fá sendan tölvupóst með öllum nánari upplýsingum þegar keppnisdagur nálgast en einnig er hægt að senda póst á braudterta2024@gmail.com
Stefnt er að því að tilkynna um úrslit með haustinu en þá munu Sögur útgáfa gefa út bók sem er tileinkuð brauðtertunni í allri sinni dýrð, og verða valdar brauðtertur úr keppninni í bókinni. „Það er enginn annar en verðlaunaljósmyndarinn Karl Petersson, sem fyrir löngu hefur skapað sér sess sem fremsti matarljósmyndari landsins, sem tekur myndir af tertunum,“ segir í tilkynningu frá Sögum.
Dómarar í keppninni eru auk Erlu Hlynsdóttur þau Sigríður Örvarsdóttir, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Tómas Hermannsson, útgefandi hjá Sögum útgáfu, og Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hússtjórnarskólans.
Mjög spennt
Erla hvetur almennt áhugafólk um brauðtertugerð til að taka þátt. „Þetta er keppni fyrir húsmæðurnar og húsfeðurna, ömmurnar og afana, og alla aðra sem deila ást okkar á brauðtertunn,“ segir hún. Ekki verður um opið hús að ræða á keppnisdag en þátttakendum er velkomið að bjóða vinum og vandamönnum með sér.
„Ég er mjög spennt að sjá og smakka terturnar á Akureyri. Það er alltaf skemmtilegt að koma í höfuðstað Norðurlands. Mér skilst líka að þar sé alltaf gott veður,“ segir Erla.
Brauðtertufélag Erlu og Erlu var stofnað árið 2019, og fór fólk þá fljótt að kalla eftir brauðtertukeppni. Félagið stóð þá að feiknarlega vel heppnaðri keppni sem haldin var á menningarnótt í Reykjavík það sama ár, í samstarfi við tvær listakonur Erla hefur einnig skipulagt fleiri brauðtertukeppnir, til að mynda keppni í COVID þar sem þemað var eldgos og sýndi fólk einstaka takta við brauðtertugerðina þá. Full ástæða hafi verið til að halda aðra alvöru keppni í ár. Erla segir að einnig hafi verið ákall í hópnum um brauðtertubók, og nú er hún að verða að veruleika.