Byggja þarf upp kerfi sem virkar fyrir öll

Dagur einstakra barna er í dag. Af því tilefni birtir Akureyri.net grein Sesselju Ingibjargar Barðdal Reynisdóttur þar sem hún fjallar um nauðsynlegar breytingar á heilbrigðisþjónustu fyrir einstök börn á landsbyggðinni. Sesselja fjallar um helstu áskoranir og setur fram tillögur að úrbótum; birtir raunar kröfur um aðgerðir.
Sesselja segir daginn minna „okkur á mikilvægi þess að skapa jöfn tækifæri fyrir öll börn, óháð búsetu. Málefnið er mér sérstaklega hugleikið þar sem ég á sjálf einstaka stelpu sem hefur kennt mér ómetanlega mikið og gefið mér tækifæri til að sjá lífið frá nýju sjónarhorni.“
Helstu áskoranir eru, segir Sesselja:
- Kostnaður við ferðalög
- Álag á systkini
- Skortur á miðlægi kerfi
- Álag á kerfið í Reykjavík
- Takmörkuð heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni
Hún segir segir 209 fjölskyldur á landsbyggðinni eiga einstakt barn. Kostnaður þeirra við að sækja heilbrigðisþjónustu í Reykjavík geti verið alls 94-146 milljónir króna árlega og löngu sé tímabært að fara betur með opinbert fé en gert er:
- Tækni ætti að nýta betur
- Sérfræðingar ættu að koma oftar út á land
- Fjármagn ætti að fara í uppbyggingu heilbrigðisinnviða í stað ferðakostnaðar
„Í starfi mínu sem framkvæmdastýra Drift EA – miðstöðvar nýsköpunar á Akureyri – hef ég átt fjölmörg samtöl við stjórnendur í heilbrigðiskerfinu. Þar finn ég sterkan vilja til að nýta innviði betur, efla staðbundna þjónustu og innleiða nýjar lausnir sem auka aðgengi og skilvirkni,“ segir Sesselja. „Sjúkrahúsið á Akureyri væri kjörinn vettvangur til að prófa nýjar lausnir sem nýtast íbúum sem búa fjarri Landspítalanum. En líkt og aðrir frumkvöðlar mæta stjórnendur oft hindrunum þegar kemur að fjármögnun mikilvægra lausna.“
Hún segist sjá skýrt hvernig hægt sé að nýta tækni og nýsköpun til að breyta ástandinu. „Við þurfum að horfa fram á veginn og byggja upp kerfi sem virkar fyrir alla - óháð búsetu. Tíminn er núna.“
Grein Sesselju: Glitrum saman – nýsköpun í heilbrigðisþjónustu fyrir einstök börn á landsbyggðinni