Fara í efni
Mannlíf

Burlesque – LYST og losti í Lystigarðinum

Fjöllista- og fullorðinsskemmtihópurinn Dömur og herra heldur kabarett-sýningu á veitingastaðnum LYST annað kvöld, föstudagskvöld . Í auglýsingu segir að sýningin henti ekki þeim „sem óttast undur mannslíkamans.“ Ein þeirra sem koma fram er Akureyrarmærin Margrét Ása Jóhannsdóttir, sem kemur fram undir listamannsnafninu Vice Versa og er hún burlesque-dansmær.

En hvað er þetta burlesque sem virðist allt um lykjandi í skemmtilífi landans um þessar mundir? „Svarið við þessari spurningu getur verið mjög misjafnt eftir því hvern þú spyrð og hvar í heiminum þú spyrð,“ segir Vice Versa, „ en fyrir mér er burlesque mjög opið listform sem tekur sig passlega alvarlega. Stutta svarið mitt er að burlesque sé kynþokkafullur kabarettdans en í raun geta burlesque-atriði verið ótrúlega fjölbreytt og mismunandi sem gerir þetta svo skemmtilegt. Burlesque fjallar oftast um mannslíkamann á gáskafullan hátt, veltir upp spurningum um hvað er kynþokkafullt um leið og það leikur sér að því að dansa á mörkum velsæmis án þess þó að fara yfir strikið.“

Húmor

Önnur Margrét, kennd við Maack, bætir við: „Það er ofsalegt frelsi í þessu skemmtiformi, sýningarnar eru settar saman úr stuttum atriðum, sjaldan er söguþráður og hentar fólki með gríðarlega stutt athyglisspan. Það sem kemur fólki mest á óvart er hversu fyndnar svona sýningar eru. Væntingar fólks eru netasokkabuxur og fjaðrir og sexí – en húmorinn læðist gjarnan aftan að fólki.“

Margrét Erla Maack, kunnasti burlesque skemmtikraftur landsins.

Margrét Ása er ekki eini Akureyringurinn í sýningunni, þarna er líka drag-stjarnan Gógó Starr sem mun sýna hið stórkostlega hákarlaatriði, eins og þær Margrétar orða það, og bæta við að fólk ætti að vera sérstaklega spennt fyrir því.

Hvernig er það að koma heim til Akureyrar með svona sýningu? Margrét Ása segist spennt en líka smá stressuð, en sviðspersónan Vice Versa bíður alltaf bara óþreyjufull eftir að komast á svið. „Hversdagshliðinni á mér líður dálítið eins og ég sé að fara að koma út úr skápnum. Fólkið sem þekkir mig fyrir norðan hefur ekki enn fengið að hitta Vice Versa en ég hlakka til að kynna hana fyrir Akureyringum. Vice Versa er ein hlið af sjálfri mér sem alltaf hefur verið til en hefur síðustu ár fengið meira pláss og er alltaf að verða stærri og stærri partur af sjálfri mér. Þannig ég myndi segja að sé bara mjög forvitin og hlakka til að vita hvernig Vice Versa verður tekið,“ segir Margrét Ása.

Chicago gerist í þessum heimi

„Svo er einstaklega gaman að koma með svona sýningu núna til Akureyrar,“ bætir Margrét Erla Maack við. „Söngleikurinn Chicago gerist inni í þessum kabarett- og gjálífisheimi svo það er gaman að spegla þann söngleik í því sem er að gerast í kabarettsenunni hér á landi í dag. Svo er engin tilviljun að búið er að setja upp tvo söngleiki sem gerast í þessum heimi með stuttu millibili hér á Akureyri, nú Chicago, síðast Kabarett. Akureyringurinn er til í þetta.“

Hverju má fólk búast við á föstudaginn? Vice Versa svarar: „Skemmtilegast við burlesque sýningar er gleðin, hláturinn og samskiptin við áhorfendur. Þessar sýningar eru nefnilega miklu frjálslegri en hefðbundið leikhús og gefur áhorfendum meira pláss til að vera partur af sýningunni. Það er kannski dálítið erfitt að lýsa þessari stemmningu, mæli bara með að fólk mæti og njóti. Ég ætla að minnsta kosti að sýna mínar bestu hliðar – og þessar hliðar eru sko ekkert smá!“