Fara í efni
Menning

Bróðir minn Ljónshjarta frumsýnt á Melum

Katrín Birta Birkisdóttir í hlutverki Snúðs í Bróðir minn Ljónshjarta. Snúður lærir að skjóta af boga hjá eldri bróður sínum Jónatani Ljónshjarta, sem er leikinn af Eden B. Hróa. Mynd: Leikfélag Hörgdæla

Á fimmtudagskvöldið, 7. mars, verður frumsýningarveisla á Melum í Hörgárdal. Þá verður Bróðir minn Ljónshjarta sýnt í fyrsta sinn hjá Leikfélagi Hörgdæla. Kolbrún Lilja Guðnadóttir, leikstjóri, segir að æfingatímabilið hafi verið mjög gefandi og þakklæti sé henni efst í huga. „Það eru náttúrulega krakkar í sýningunni, sem hafa lagt sig svo fram og standa sig svo vel. Þau lærðu textann sinn á undan fullorðna fólkinu og hafa sýnt mikla fagmennsku,“ segir Kolbrún.

Mörg þekkja sögu Astrid Lindgren um bræðurna tvo, sem hittast í töfralandinu Nangijala eftir stutta og erfiða jarðvist. Snúður og Jónatan lenda saman í ævintýrum í baráttu góðs og ills, þar sem riddarinn Þengill, hermenn hans og drekinn Katla reyna að ná yfirráðum. 

Eden B. Hróa í hlutverki Jónatans Ljónshjarta að senda skilaboð yfir í Kirsuberjadal. Mynd: Leikfélag Hörgdæla

Með aðalhlutverkið, yngri bróðurinn Snúð, fer hin 12 ára gamla Katrín Birta Birkisdóttir, en Eden Blær Hróa leikur eldri bróðurinn Jónatan Ljónshjarta. Hljóðheim leikverksins skapar tónlistarmaðurinn Svavar Knútur. 

Ég er hrædd um að þessi saga sé búin að týnast svolítið. Það er góð tilfinning að fá að endurvekja hana á Melum

„Leikritið var sýnt í Þjóðleikhúsinu 1998, og ég sá það, þá fimm ára gömul,“ segir Kolbrún Lilja. „Eva Sköld samdi leikgerðina upp úr bók Astrid Lindgren, en Þorleifur Hauksson þýddi. Árið 2014 setti Leikfélag Selfoss verkið upp, en ég veit ekki til þess að önnur leikfélög hafi gert það síðan.“ Kolbrún segir að henni hafi komið á óvart, þegar þau héldu áheyrnarprufur fyrir krakkana, hversu fáir höfðu heyrt um söguna. „Mér fannst það svolítið sorglegt, því þetta var svona saga sem maður las aftur og aftur og hafði mikil áhrif á mig. Bæði þegar ég las hana sem barn, og svo aftur á allt annan hátt þegar ég var orðin fullorðin.“

Ísabella Líf Baldvinsdóttir í hlutverki stríðnispúka að dást að Jónatani, leikin af Eden B. Hróa. Mynd: Leikfélag Hörgdæla

„Ég horfði mikið á bíómyndina, og hún er náttúrulega gömul og hrikalega illa talsett, þannig að ég er ekkert viss um að krakkar í dag myndu vilja horfa á hana,“ segir Kolbrún Lilja. „Þannig að ég er hrædd um að þessi saga sé búin að týnast svolítið. Það er góð tilfinning að fá að endurvekja hana á Melum.“ Kolbrún bendir á að ævintýrum hafi oft verið breytt á síðustu árum, milduð jafnvel og dauðinn ekki jafn áberandi. „Það er stríð, dauði og dráp í Bróðir minn Ljónshjarta. Og ég vildi ekki breyta því, hlutirnir eru ekki þannig í raun og veru að fólk sé ódauðlegt.“ 

Svo er ímyndunaraflið öflugur liðsmaður í leikhúsinu, við þurfum kannski ekki að sýna allt.

„Við miðum við skólaaldur og upp úr,“ segir Kolbrún, aðspurð um fyrir hverja verkið sé. „Drekinn og stríðið gætu kannski verið svolítið mikið fyrir börn á leikskólaaldri, en við leyfum foreldrum sjálfum að meta hvað börnin þeirra þola.“

Sigurður Viðarsson í hlutverki Kader, hermanns í liði Þengils. Mynd: Leikfélag Hörgdæla

Það verður fróðlegt að sjá, hvernig Nangijala með öllum sínum ævintýrum rúmast á sviðinu á Melum. „Áskorunin var kannski helst, að það er ekkert hliðarsvið á Melum, “ segir Kolbrún Lilja. „Það er ekki hægt að trilla neinu inn, þannig að allt verður að nýtast sem best sem er á sviðinu. Mér finnst við hafa náð góðri lendingu með sviðið og ég er mjög ánægð með útkomuna. Svo er ímyndunaraflið öflugur liðsmaður í leikhúsinu, við þurfum kannski ekki að sýna allt.“

Frumsýningin verður klukkan 20.00, fimmtudaginn 7. mars og komnar eru 12 sýningar í sölu auk hennar. Miðar eru seldir á tix.is