Breyttir leikdagar vegna lokamóts EM U19
KSÍ hefur breytt leikdögum nokkurra leikja í Lengjudeild karla til að koma til móts við þau félög sem eiga leikmenn í U19 landsliðinu og fara á lokamót EM.
U19 landslið karla fer til Möltu 30. júní þar sem lokamót EM fer fram. Leikdagar íslenska liðsins eru gegn Spáni 4. júlí, Noregi 7. júlí og Grikklandi 10. júlí. Undanúrslit fara fram 13. júlí og úrslitaleikur 16. júlí. Leikið er í tveimur fjögurra liða riðlum.
Ákveðið var að ef lið óskuðu eftir tilfærslu á leikjum vegna þátttöku leikmanna í þessu verkefni yrði orðið við því. Fundinn hefur verið nýr leikdagur fyrir hluta af þeim leikjum sem um ræðir, en öðrum hefur verið frestað og nýir leikdagar tilkynntir eins fljótt og við verður komið.
Einn frá Þór, enginn frá KA
Þórsarar eiga einn leikmann í U19 hópnum, Bjarna Guðjón Brynjólfsson, en fimm önnur lið í Lengjudeildinni eiga einnig leikmenn í hópnum. Enginn leikmaður er frá KA í leikmannahópnum. Tveir leikir eru á dagskrá hjá KA á þeim tíma sem EM fer fram, útileikur gegn FH þann 8. júlí í Bestu deildinni og heimaleikur gegn Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. FH á einn leikmann í U19 hópnum, Loga Hrafn Róbertsson, sem hefur komið við sögu í öllum tíu leikjum liðsins í deildinni í sumar. Breiðablik á sömuleiðis einn leikmann í hópnum, Ágúst Orra Þorsteinsson, sem komið hefur við sögu í tveimur leikjum liðsins í deild og þremur í bikarkeppninni.
Ekki hefur verið gefið út hvort og þá hvaða breytingar verða gerðar á leikjum í Bestu deild karla vegna mótsins.
Breytingar á leikjum hjá Þór
- ÍA - Þór
Var: Laugardaginn 1. júlí
Verður: Fimmtudaginn 29. júní kl. 18 á Akranesi. - Þór - Grótta
Var: Fimmtudaginn 6. júlí á Þórsvelli.
Verður: Nýr leikdagur tilkynntur síðar. - Grindavík - Þór
Er á dagskrá 12. júlí í Grindavík.
Breyting hefur ekki verið gefin út, en árangur U19 liðsins gæti haft áhrif á þennan leik.
Breytinga að vænta í Bestu deild kvenna
Búast má við tilkynningu um svipaðar breytingar hjá Þór/KA í Bestu deildinni fljótlega, en nú er beðið eftir að leikmannahópurinn verði valinn og tilkynntur. Lokamót EM hjá U19 kvenna fer fram í síðari hluta júlímánaðar. Leikdagar Íslands eru 18. júlí gegn Spáni, 21. júlí gegn Tékklandi og 24. júlí gegn Frakklandi. Undanúrslitaleikir fara fram 27. júlí og úrslitaleikurinn sunnudaginn 30. júlí. Á þeim tíma á Þór/KA útileik gegn Breiðabliki 21. júlí og heimaleik gegn Þrótti 26. júlí. Búast má við að þessi þrjú lið muni öll eiga leikmenn í U19 hópnum.