Fara í efni
Fréttir

Breyta vínveitingaleyfi, veitingasalinn hættir

Veitingasalinn í Hlíðarfjalli hefur ákveðið að hætta sölu á áfengi, og kveðst raunar hafa beðist lausnar frá leigusamningi á húsnæðinu, vegna þess að Akureyrarbær hafi farið fram á breytingu á vínveitingaleyfinu.

Gífurleg viðbrögð urðu þegar sala áfengis hófst á skíðasvæðinu í byrjun mánaðarins – margir lýstu yfir mjög mikilli óánægju en fjöldi fólks var líka himinlifandi með breytinguna.

„Akureyrarbær hefur skipt um skoðun og farið fram á breytingar á vínveitingaleyfinu. Með þeim takmörkunum sem Akureyrarbær krefst þá gætum við ekki selt fólki áfengar veitingar sem kaupir miða í fyrra hollið á virkum dögum þegar fjallið opnar aftur (flestir gestir frá Reykjavíkursvæðinu). Við höfum ekki fengið skýringar á hvaða tilgangi þessar takmarkanir þjóna og ekkert samráð haft við okkur,“ segir á Facebook síðu veitingastaðarins í dag.

„Þessi stefnubreyting er vægast sagt óvænt, enda hafði Akureyrabær samþykkt tilboð okkar í veitingarekstur sem gekk út á þessa nýbreytni, og við vitum ekki um aðra veitingastaði sem þurfa að banna sölu á bjór til kl 16. Við höfum því ákveðið að hætta sölu á áfengi og beðist lausnar frá leigusamningi á húsnæðinu í skíðahótelinu í Hlíðarfjalli svo að einhver annar geti tekið við og rekið þetta á forsendum Akureyrarbæjar,“ segir veitingamaðurinn á Facebook síðu.