Fara í efni
Menning

Boreal Screendance hátíðin hefst í kvöld

Dansvídeóhátíðin Boreal Screendance Festival, sem hefst í dag, fer nú fram í fimmta sinn á Akureyri. Hátíðin stendur til 13. nóvember og leggur undir sig Listagilið þessar tæpu tvær vikur; sýningarstaðir eru Listasafnið á Akureyri, Mjólkurbúðin og Deiglan.

Herlegheitin hefjast klukkan 20:00 í kvöld í Listasafninu á Akureyri með setningarathöfn, fyrstu sýningum auk innsetninga og gjörningi sem Arna Valsdóttir flytur.

  • Allir viðburðir á vegum Boreal Screendance Festival 2024 eru opnir gestum að kostnaðarlausu.
  • Dagskrá má nálgast á miðlum og heimasíðu Boreal – slóðir þangað neðst í fréttinni.

„Boreal Screendance Festival miðar að eflingu danslista og margmiðlunar með sérstaka áherslu á alþjóðasamstarf. Í ár verða sýnd 34 dansmyndir og vídeódansverk vítt og breitt um Listagilið eftir listafólk frá 21 landi og hefur dagskráin aldrei verið fjölbreyttari!“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.

„Boreal hefur verið haldin árlega síðan 2020 í Listagilinu á Akureyri og á þeim tíma vakið verðskuldaða athygli fyrir nýstárlega nálgun á sýningar myndbandsverka úr öllum heimshornum. Mikið púður er lagt í umgjörð hátíðarinnar og að verkin sem tekin eru til sýningar séu sett fram við bestu mögulegu aðstæður hvað varðar hljóð og mynd.“

Í tilkynningunni segir að miðað við aðsókn síðustu ára henti Boreal jafnt heimafólki, aðfluttum sem og ferðamönnum enda alþjóðleg hátíð í anda. „Allir gestir ættu þannig að geta fundið eitthvað við sitt hæfi enda fjölbreytileiki dansvídeóverkanna gríðarlegur sem endurspeglar vel þann fjölda listafólks allsstaðar að úr heiminum sem tekur þátt. Boreal hefur auk þess mikla sérstöðu í menningarlandslaginu en hún er eina hátíðin sinnar tegundar sem haldin er árlega hérlendis.“

Það er samtímadansarinn og danshöfundurinn Yuliana Palacios sem er stofnandi og listrænn stjórnandi Boreal. Yuliana er frá Mexíkó en fluttist til Íslands árið 2016 og hefur síðan þá látið að sér kveða í menningarlífinu hérlendis. Hefur hún ýmist sett upp sjálfstæð dans- og gjörningaverk eða unnið í samstarfi við annað listafólk auk þess að sinna kennslu. Síðustu ár hefur Yuliana fengist við myndbandagerð og margmiðlun í auknum mæli og er dansvídeóhátíðin Boreal ein birtingarmynd þess.



Boreal hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni.

Boreal Screendance Festival á samfélagsmiðlum:

Instagram

Facebook

Heimasíða Boreal Screendance Festival:

Samstarfs- og styrktaraðilar Boreal Screendance Festival 2024 eru: Listasafnið á Akureyri, Akureyrarbær, Sendinefnd ESB á Íslandi, Gilfélagið, Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra & Prentmet/Oddi.