Bömmerinn sem reyndist vera blessun
![](/static/news/lg/x3edwkor39qfrome4tppp9.jpg)
Unnur Stella Níelsdóttir var á leið í ferðalag til Asíu þegar heimsfaraldurinn skall á. Ekkert varð úr ferðalaginu og í staðinn endaði hún á því að kaupa sér íbúð á Akureyri fyrir ferðasjóðinn. Á sama tíma fór hún að mála aftur eftir langt hlé og enduruppgötvaði ástríðu sína fyrir myndlist, sem síðan hefur leitt hana á óvæntar slóðir.
Það sem leit út fyrir að vera algjör bömmer fyrir nýútskrifaða menntaskólamær reyndist, eftir á að hyggja, vera blessun fyrir þessa ungu listakonu. Asíuferðina, sem ekkert varð úr, hefur Unnur Stella unnið upp á annan hátt því hún hefur dvalið langdvölum í fjórum löndum. Þar hefur hún sogað í sig erlend áhrif og menningu, sem skilað hafa sér í verkin, eins og glöggt má sjá á hennar þriðju einkasýningu, „Fimm skref“, sem nú stendur yfir í bókasafni Háskólans á Akureyri og sagt var í gær, í fyrri hluta viðtals Akureyri.net við Unnu Stellu.
Á sýningunni má sjá verk sem Unnur Stella hefur málað á undanförnum fimm árum og hvernig stíll hennar hefur þróast og breyst. Staðsetningin fyrir þessa sýningu sem snýst um vöxt og þroska hennar sem listamanns hefði varla getað verið betri, því listin fór fyrst að blómstra af alvöru í lífi hennar eftir að hún, sem fyrrum nemandi við skólann, afskrifaði háskólanám.
Kettir eru sjálfstæðir og gera það sem þeim sýnist. Unni Stellu finnst þeir vera skemmtilegt myndefni.
Listin rétta leiðin
„Ég hélt alltaf að ég þyrfti að fara í háskólanám. Kannski af því að fjölskylda mín er öll menntafólk, það er enginn listrænn í minni nánustu fjölskyldu þannig ég sá listina aldrei fyrir mér sem raunahæfan atvinnumöguleika,“ segir Unnur Stella sem er Akureyringur í húð og hár. Móðir hennar er Oddný Snorradóttir, fyrrum tölvunarverkfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri og faðir hennar Níels Einarsson, mannfræðingur sem er nýhættur sem forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Unnur Stella segir foreldra sína alls ekki hafa pressað á sig að fara í háskólanám, það voru frekar hennar eigin fyrirfram mótuðu skoðanir sem flæktust fyrir henni en systkini hennar þrjú eru öll langskólagengin.
Að loknum menntaskóla, þegar ekkert varð af Asíuferð með bestu vinkonunni, skráði Unnur Stella sig í Háskólann á Akureyri á félagsvísindabraut, því henni fannst hún verða að gera eitthvað. „Ég var í skólanum í þrjár vikur en áttaði mig þá á því að bóknám hentaði mér ekki. Þegar ég ræddi þetta við mömmu sagði hún að ég ætti bara að hætta og fara í listnám. Hún vissi alveg að það var listin sem ég ætti að leggja fyrir mig löngu áður en ég var búin að taka það í sátt,“ segir Unnur Stella.
Unnur Stella málar undir nafninu StartStudio og hefur t.d. selt verk sín í Kistu í Hofi og hjá Uppskeru listamarkaði. Eigin vefverslun er í vinnslu.
Til Spánar í hönnunarnám
Í kjölfarið fann Unnur Stella hönnunarskóla á Spáni sem hún hóf nám í haustið 2021. Í millitíðinni hafði hún byrjað að mála aftur, nokkuð sem hún gerði mikið af þegar hún var yngri, en í covid með tilheyrandi samkomubönnum og sóttkvíum, var allt í einu aftur tími og tækifæri til þess að taka litina fram. „Sem barn var ég alltaf í Myndlistarskólanum á Akureyri og fannst það æði. Myndmennt var líka mitt uppáhalds fag í skóla. Listabrautin í VMA togaði alveg í mig en ég valdi MA þar sem allir vinir mínir fóru þangað. Og ég sé ekkert eftir því en ef ég væri að velja núna þá hefði ég frekar valið listabrautina og hafið minn listaferil fyrr.“
Skólinn sem Unnur Stella fór í á Spáni heitir Marbella Design Academy en þar er boðið upp upp á þriggja mánaða grunnnám í innanhúss arkitektúr, fatahönnun og grafískri hönnun. Að grunnnámi loknu geta nemendur svo valið sér línu og haldið áfram. „Á þessum tíma langaði mig svo mikið til þess að komast frá Akureyri og þess vegna var svo fyndið að fyrstu manneskjunum sem ég rakst á í skólanum voru tvær stelpur sem ég kannaðist við úr VMA. Ég sem var komin alla þessa leið til að komast frá Íslendingum,“ rifjar Unnur Stella upp og hlær, en hún hefur nú lært að Íslendingar virðast vera á hinum ótrúlegustu stöðum. Ekki nóg með að þessar akureyrsku stelpur væru í skólanum á sama tíma og hún, heldur var þar líka íslenskur kennari frá Flatey.
„Það er mikil stærðfræði í innanhússarkitektinum, og þó grafísk hönnun sé praktískt nám þá átti þessi tölvuvinna ekki við mig,“ segir Unnur Stella sem sá fljótt að hún þurfti að fara í mun listrænna nám. Tíminn á Spáni var þó skemmtilegur að hennar sögn en það besta sem kom út úr honum var að í skólanum kynntist hún unnusta sínum, Bandaríkjamanninum Alessandro Andrade, en þau eru trúlofuð.
Vegglistaverk eftir StartStudio prýða salernisveggina á Teríunni á Akureyri.
Málaði á hverjum degi í Flórens
Þegar önninni lauk hélt Unnur Stella aftur til Íslands en um haustið 2022 flutti kærustuparið saman til Flórens þar sem þau fóru bæði í nám við Leonardo DaVinci Academy. „Alessandro fór í fatahönnun en ég fór í málarlist. Þá fór ég líka í keramiknám því skólinn var í samstarfi við pínulítið fjölskyldurekið keramik stúdíó. Mér fannst ég læra alveg helling í Flórens, bæði hvað varðar keramikið en ekki síst málaralistina. Þetta var líka í fyrsta sinn sem ég málaði á hverjum einasta degi og það var æði. Ég var að prófa mig áfram og gera allskonar tilraunir. Ég hafði verið svolítið föst í því að mála andlit, potta og blóm í covid og vissi eiginlega ekki hvað annað ég ætti að mála. En það sem var svo gaman þarna úti var að kennarinn kynnti mismunandi stíla og tækni fyrir okkur nemendunum, en samt var okkur frjálst að mála hvað sem var. Ég var t.d. einu sinni alveg föst með eitthvað verk og kennarinn segir við mig prófaðu að nota fjólubláan sem er litur sem ég hafði aldrei notað því mér fannst hann engan veginn vera minn litur. En svo prófaði ég hann og það var akkúrat það sem vantaði upp á. Það eru svona litlir hlutir sem maður þarf þegar maður er að byrja, að láta einhvern ýta við sér.“
Í Flórens fór Unnur Stella í nám í málarlist við Leonardo DaVinci Academy. Þá fór hún einnig í keramiknám í pínulitlu fjölskyldureknu keramík verkstæði.
Seldi fyrsta verkið í New Orleans
Þegar landvistarleyfi kærastans rann út og tími til kominn að hann færi aftur til Bandaríkjanna ákvað Unnur Stella að fara með honum til New Orleans. Í ársbyrjun 2023 fluttu þau inn til foreldra hans og þar kom Unnur Stella sér upp vinnuaðstöðu. „Flórens var æði, en New Orleans er geggjuð borg. Hún er algjör listaborg, mjög litrík og frjálsleg“, segir Unnur Stella sem hélt áfram að mála í Bandaríkjunum af fullum krafti. „Borgin hafði mikil áhrif á mig eins og sést í verkum mínum frá þessum tíma. Í New Orleans seldi ég líka mitt fyrsta verk til ókunnugra. Ég fór út um allt og fann loks verslun sem selur list eftir listamenn búsetta á svæðinu og hún var tilbúin að selja verkin mín. Það var mjög stórt skref fyrir mig þegar fyrsta verkið mitt seldist því ég var í nýju landi þar sem ekki var auðvelt að koma sér á framfæri.“
Mér þótti mjög vænt um það þegar pabbi sagði við mig að háskólanám væri alls ekki fyrir alla og að það væri ekki forsenda þess að mér gæti gengið vel í lífinu. Ég væri með það mikið frumkvæði og það mikinn drifkraft að ég færi mína eigin leið.
Unnur Stella hefur búið mikið erlendis á undanförnum árum. Á myndinnni til vinstri er hún í litríku New Orleans og á myndinni til hægri er hún í Flórens.
Um sumarið kom Unnur Stella aftur til Akureyrar og leigði sér þá vinnuaðstöðu í JMJ húsinu og hélt áfram að mála undir listamannanafninu StartStudio. „Þar byrjaði ég að mála verk sem einkenna enn stílinn minn í dag,“ segir hún. Þar sem Unnur Stella var á þessum tíma farin að selja töluvert af verkum sínum fannst henni að hún þyrfti að bæta við sig viðskiptamenntun og fór því í stutt nám í nýsköpun og frumkvöðlastarfi í Malmö haustið 2023. „Mér finnst best að læra ef námið er stutt en krefst þess að ég leggi mig alla í það, þannig læri ég best. Ég á mjög erfitt að sjá mig fyrir í einhverju fjögurra ára háskólanámi, það mun ekki virka fyrir mig. Og ég er búin að sætta mig við það,“ segir Unnur Stella og heldur áfram. „Það loðir samt við listina að fólk heldur að það sé ekki hægt að lifa á henni, sérstaklega er þetta skoðun eldra fólks, sem finnst betra að maður hafi einhvern varnagla. Foreldrar mínir hafa þó stutt mig í öllu sem ég hef gert og eru stoltir og ánægðir með mig, enda er ég búin að sanna mig. Mér þótti mjög vænt um það þegar pabbi sagði við mig að háskólanám væri alls ekki fyrir alla og að það væri ekki forsenda þess að mér gæti gengið vel í lífinu. Ég væri með það mikið frumkvæði og það mikinn drifkraft að ég færi mína eigin leið.“
Ég hélt alltaf að ég þyrfti að fara í háskólanám. Kannski af því að fjölskylda mín er öll menntafólk, það er enginn listrænn í minni nánustu fjölskyldu þannig ég sá listina aldrei fyrir mér sem raunahæfan atvinnumöguleika.
Handmálar á diska
Eins og kom fram í fyrri hluta viðtals Akureyri.net við Unni Stellu í gær hefur hvert tækifærið dúkkað upp á fætur öðru hjá henni og var síðasta ár henni sérlega gjöfult hvað listina varðar. Hér á Íslandi hafa verk StartStudio, bæði keramikhlutir og málverk, verið fáanleg í Kistu, hjá Uppskeru listamarkaði og í gegnum hennar eigin Instagramsíðu. Þá hefur hún líka selt verk sín í New Orleans sem og í Svíþjóð og í Hollandi, þar sem hún er búsett núna. „Ég hef enn ekki komið mér upp vinnuaðstöðu í Hollandi en það stendur til. Í millitíðinni hef ég verið að handmála á diska og brenna í bakarofninum heima. Það er ekki eins plássfrekt og málverkin,“ segir Unnur Stella en parið er búsett í Rotterdam. Alessandro er þar á leið í nám í borgarskipulagi (urban planning) en Unnur Stella sér fyrir sér að halda áfram að sinna listinni.
Unnur Stella býr nú í Hollandi ásamt unnusta sínum, Alessandro Andrade.
Undirbýr sýningu um sjókonur
Í haust tók hún þátt í sínum fyrsta lista- og hönnunarmarkaði í Hollandi þar sem handmáluðu diskarnir hennar ruku út. „Þetta var mjög skemmtilegt, ég kynntist fullt af fólki og ég á örugglega eftir að taka þátt í fleiri svona mörkuðum“. Segir hún að tækifærin leynist víða en hún þurfi að styrkja tengslanetið, láta vita betur af sér og sjá svo hvert það leiði hana. „Nágranni minn er ljósmyndari og hann er með 30 ára reynslu í því að mynda málverk. Hann er sjötugur og við erum orðin bestu vinir. Ég fer oft í kaffi til hans og við erum þá að spjalla um ljósmyndun og listina. Hann myndar málverk fyrir öll helstu söfnin hér úti, hann er bara að mynda Van Gogh á miðvikudegi og aðra heimsfræga listamenn í stúdíóinu sínu,“ segir Unnur Stella en áðurnefndur ljósmyndari myndaði einmitt verkið sem hún málaði fyrir bleikan október á síðasta ári og seldi eftirprent af til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar. Það er því stutt að fara ef Unnur Stella ákveður að gera fleiri eftirprent af verkum sínum, sem er ekki ólíklegt því markmið þessa árs hjá henni er að opna sína eigin vefverslun.
Þá er Unnur Stella þegar farin að undirbúa næstu sýningu sem verður sett upp á Akureyri í haust en hún mun fjalla um sjókonur. Segist hún hafa fengið bókina Woman, Captain, Rebel: The Extraordinary True Story of a Daring Icelandic Sea Captain, eftir mannfræðinginn dr. Margaret Willson að gjöf, en Margaret hefur rannsakað sjósókn kvenna á Íslandi. Henni fannst efnið áhugavert og fékk áhuga á því að mála nokkrar íslenskar sjókonur, bæði úr fortíð og nútíð. „Málverkin verða mín túlkun á þessum íslensku sjókonum. Ég sé fyrir að við hvert verk verði ljósmynd af umræddri konu og smá texti um hana,“ segir Unnur Stella en hún fékk nýlega styrk vegna væntanlegrar sýningar úr minningarsjóði Rósu Eggertsdóttur vegna verkefnisins „List styður list“ á vegum Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu. „Ég mála yfirleitt ekki mannfólk þannig að þetta verkefni verður alveg ögrun fyrir mig,“ segir Unnur Stella spennt fyrir því sem árið mun færa henni.