Bleika slaufan og ljóðalestur í hádeginu
Sigga Soffía Níelsdóttir, hönnuður bleiku slaufunnar og ljóðskáld, flytur ljóð í verslun Pennans Eymundssonar á Akureyri kl. 12 á hádegi í dag, laugardag. Tilefnið er Bleika slaufan, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum og er varningur tengdur átakinu til sölu í versluninni.
- Þegar sýningin verkið var sýnt í Hofi fyrr á þessu ári ræddi Akureyri.net við höfundinn: „Alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt“
Bleika slaufan í ár er þrjú eldblóm sem mynda skínandi blómakrans sem lítur út fyrir að hafa verið dýft ofan í fljótandi málm, segir á vef Krabbameinsfélagsins. Þar segir einnig: „Allt tekur enda – ekkert er varanlegt“. Augnablikið þegar blómin springa út er ákveðinn hápunktur en mörgu þarf að huga að til að plantan blómstri. Að jafna sig eftir veikindi er svipað – og því meira sem við hlúum að fólkinu okkar eftir meðferð – því líklegra er að það blómstri aftur. Aðstandendur, ókunnugir sem bjóða góðan daginn, þeir sem að styðja við, peppa og segja þér að gefast ekki upp og trúa á þig hafa meiri áhrif en margan grunar.
Verkefnið hefur persónulega þýðingu fyrir Siggu Soffíu, segir á vef KAON; hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2020 og þurfti að fara í lyfja- og geislameðferð og aðgerð, „og hefur því miklar og sterkar tilfinningar tengdar þessu verkefni,“ segir þar.
„Ég þekki af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa baklandið og félag eins og Krabbameinsfélagið til styðja við mann í ferlinu öllu og ekki síður eftir að meðferð lýkur. Félagið gaf mér leiðarvísi í þeim nýja veruleika sem ég þurfti að fást við. Mér fannst mér bera skylda til að bera þennan boðskap áfram og þakka fyrir þann mikilvæga stuðning sem ég hef fengið,“ segir Sigga Soffía á vef KAON.
„Fegurðin í hversdagsleikanum, fáir vita að flugeldar voru upphaflega hannaðir eftir blómum. Þessi blóm sem prýða slaufuna eru Eldblóm – hægt er að sjá töfra í hversdagsleikanum og hægfara flugeldasýningar í blómabeðunum. Metaláferðin minnir á flugeldana en blómin skjótast upp og springa út: flugeldar springa út á himnum á 4 sekúndum en blómið við jörðina á 4 mánuðum,“ segir Sigga Soffía.
„Fyrir mér er slaufan næla sem er hönnuð eins og flugeldasýning þar sem flugeldar eru sprengdir upp í ákveðinni röð til að mynda ákveðna mynd eða blóm sem springa út. Í slaufunni frystum við augnablikið, líkt og flugeldasýningu í hápunkti.“
Hér er hægt að kaupa Bleiku slaufuna