Fara í efni
Mannlíf

Bjóða gistingu í 84 lokrekkjum í miðbænum

Hörður og Sigrún, gestgjafar hjá Hafnarstræti Hostel. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Hjónin Hörður Rögnvaldsson og Sigrún Gísladóttir sem reka Hafnarstræti hostel á annarri hæð í Amarohúsinu eiga fimmtíu ára brúðkaupsafmæli á næsta ári „Við höfum unnið saman frá því að við kynntumst. Við opnuðum fyrsta matsölustaðinn okkar saman þegar Hörður útskrifaðist sem matreiðslumaður. Það var í Vestmannaeyjum. Síðan höfum við verið með eigin rekstur saman meira og minna, með einhverjum örfáum útúrdúrum.“ segir Sigrún. 

Það er alltaf jafn gaman að sýna heimamönnum staðinn, þar sem fólk er oft steinhissa og hafði enga hugmynd um að þetta væri til hérna á Akureyri

Hjónin bjóða upp á gistingu í svokölluðum lokrekkjum. Auk þess eru sameiginleg rými fyrir gesti eins og tíðkast á hostelum, þar sem hægt er að elda sér mat, setjast niður og njóta útsýnis yfir göngugötuna. „Hostelið var mjög nýstárlegt þegar við opnuðum fyrir sjö árum,“ segir Sigrún. „Þá var til Galaxy Pod Hostel í Reykjavík, en það var allt öðruvísi en okkar. Í Vestmannaeyjum er svo eitt hostel sem er með svipaðar lokrekkjur og við og opnaði á svipuðum tíma,“ bætir Hörður við. „Það er alltaf jafn gaman að sýna heimamönnum staðinn, þar sem fólk er oft steinhissa og hafði enga hugmynd um að þetta væri til hérna á Akureyri.“

 

Hörður finnur lokrekkju til þess að sýna blaðamanni. Mynd: RH

Reynsluboltar í þjónusturekstri

„Við vorum með kaffihús í Kópavogi, sem hét Café Dix,“ segir Sigrún. „Margir af þeim íslensku gestum sem koma muna eftir okkur síðan þá, en þar vorum við á staðnum öllum stundum og sinntum rekstrinum sjálf. Þá skapast oft gott samband við fastakúnna og það er svo gefandi.“ Hjónin seldu kaffihúsið og höfðu í huga að minnka við sig vinnu í kjölfarið á því. Örlögin höguðu því þannig að yngsta dóttir hjónanna flutti til Akureyrar með fjölskyldu sinni, eitt sinn þegar þau hjónin voru í heimsókn hjá þeim heyrði Hörður af húsnæði í Amarohúsinu sem þá var að losna. 

Alltaf með hostel í huga

„Ég gerði bara tilboð í þetta húsnæði í einhverju bríaríi,“ segir Hörður hlæjandi. „Ég fékk strax þessa hugmynd, að það myndi henta vel að opna svona hostel hérna. Ég hafði séð svipað á ferð um Kína og eftir að við eignuðumst húsnæðið fórum við saman til Asíu og leituðum að góðu fyrirtæki og keyptum þessar lokrekkjur. “ Það er pláss fyrir 84 í gistingu og þannig hefur það verið frá upphafi, þegar Hafnarstræti Hostel opnaði fyrir 7 árum síðan.

 

Inni í hverri rekkju er sjónvarp með Cromecast. Mynd; RH

Engum ætti að leiðast inni í lokrekkjunni

Það eru bæði lokrekkjur fyrir einstaklinga og tveggja manna, en tveggja manna eru þá með 160 cm rúmi. „Fólk hefur fengið leyfi fyrir því að hafa börnin sín undir 6 ára aldri með sér í gistingu, og þeim finnst það alltaf jafn mikið ævintýri, að gista inni í svona lokrekkju,“ segir Sigrún. Hörður bætir við að það séu yfirleitt börnin sem eru fljótust að finna út úr tæknihliðinni í rekkjunni, en í hverri þeirra er sjónvarp og Cromecast tækni sem hægt er að tengjast með farsímanum, það vekur oft mikla lukku. 

Yfir meiripart ársins hefur það svo þróast þannig að Íslendingar eru oft í meirihluta. Fólk kemur til okkar aftur og aftur

Árið er svolítið breytilegt eftir árstíðum hjá Hafnarstræti Hostel. Ferðamenn eru algengastir á sumrin, en á veturna fáum við til okkar nemendafélög háskólanna í skíðaferðir, það eru margir hópar sem hafa komið til okkar árlega, frá upphafi og það er alltaf jafn skemmtilegt. „Yfir meiripart ársins hefur það svo þróast þannig að Íslendingar eru oft í meirihluta. Fólk kemur til okkar aftur og aftur.“ Hörður bætir við að þau hafi einu sinni auglýst hostelið á Íslandi, annars hefur það bara spurst út á meðal fólks, að hægt sé að gista á góðu verði á besta stað á Akureyri. 

 

Sameiginlegt rými, eldhús og setustofa. Mynd: RH

 


Baðaðstaðan er hugguleg, en hér við hliðina er gangur með salernum og sturtum fyrir gestina. Mynd RH

Hostelið er mjög tæknilegt, en gestirnir skrá sig inn sjálfir með upplýsingum sem þau hafa fengið við bókun. Allt er sjálfvirkt og óneitanlega er svolítið skemmtilegt að skoða sig um í gistirýmunum, þar er róleg stemning og lokrekkjurnar eru forvitnilegar þar sem þær minna helst á að maður sé staddur í geimskipi eða einhverju ámóta. „Við höfum svona smáþróað þetta allt saman, þar sem allt hefur orðið sjálfvirkara með tímanum,“ segir Sigrún. „Núna getum við stjórnað öllu hérna í gegn um símann, sama hvar við erum í heiminum. Við erum samt mikið á staðnum líka, og höfum traust og gott starfsfólk sem við reiðum okkur á.“

Gestir sýna staðnum virðingu

„Okkar reynsla er sú, að þegar fólk kemur á svona stað og hann er snyrtilegur og vel gengið um, þá gengur það líka vel um,“ segir Hörður. „Við höfum ekki verið að lenda í slæmri umgengni, gestirnir okkar sýna almennt virðingu og svo er stemningin hérna ekki að bjóða upp á nein læti. Ljósin slokkna klukkan 22 og þá dempast allt og ró kemst yfir svæðið.“ Það er engin veitingasala á staðnum, en gestir hafa aðgang að eldhúsi og stórum kæli. „Það skapast oft mjög skemmtileg stemning hérna í sameiginlega rýminu, fólk er að elda sér mat og leyfir hvert öðru að smakka.“

 

Gestir komast inn í lyftuna upp á aðra hæð með kóða. Við tekur svo sjálfsafgreiðsla til þess að fá lykilinn að rekkjunni, auk þess að fá upplýsingar um þjónustuna. Mynd: RH

„Við tókum skrefið fyrir stuttu, að kaupa okkur hús í bænum,“ segir Sigrún. „Fyrstu fimm árin bjuggum við hérna, í sér herbergi, og vorum því í rauninni í vinnunni allan sólarhringinn. Núna erum við eiginlega bara hérna þegar það er mikið af gestum. Ef að við erum með rúmlega fimmtíu manns í gistingu þá viljum við vera á staðnum. Ef þú ætlar að láta svona fyrirtæki blómstra, þá þarftu að sinna því sjálf.“

Stór og samheldin fjölskylda

Hörður er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og bjuggu þau hjónin þar saman, en Sigrún er upphaflega frá Kópavogi. „Við eigum fimm börn í það heila,“ segir Sigrún. „Tvö elstu eru börn Harðar og stjúpbörnin mín, og svo eigum við þrjú börn saman. Þau styðja okkur öll í þessu, einn sonur okkar býr í Noregi og er tölvusérfræðingur, ein dóttir okkar er í Danmörku og er lærð í þjónustu og upplifunarhagfræði, ein dóttir okkar býr hérna fyrir norðan með fjölskyldu sinni og tvö elstu börnin búa í Reykjavík.“

,,Þetta hafa verið ótrúlega viðburðarík og skemmtileg ár, við höfum kynnst fólki alls staðar að úr heiminum og eigum orðið heimboð um allan heim. Kannski þegar við hættum að vinna förum við bara í bakpokaferðalag um heiminn," segir Sigrún að lokum.

 

Skilaboð frá ánægðum gestum, en hjónin hafa eignast góða vini um allan heim. Mynd: RH