Bjartari og nýtískulegri innilaug
Uppfærsla á innilaug Sundlaugar Akureyrar hefur lengi verið í bígerð en laugin er barns síns tíma og þarfnast endurbóta. Í haust hefjast loks framkvæmdir og verður því innilaugin lokuð á meðan.
● Sjá fyrri umfjöllun Akureyri.net um málið
Framkvæmdir standa yfir í allan vetur
„Þetta er mjög góð breyting, en framkvæmdin er stór. Við reiknum alveg með vetrinum og vorinu í þetta,“ segir Gísli Rúnar Gylfason, forstöðumaður sundlauga Akureyrar. „Við vonumst auðvitað til þess að framkvæmdirnar dragist ekki en þar sem laugin er gömul þá vitum við ekkert hvað kemur í ljós fyrr en við byrjum, þegar við opnum ormagryfjuna. Við getum í raun ekki svarað því í dag hvað þetta mun taka langan tíma en að lágmarki fram á vorið. “
Meðal þess sem til stendur að gera er að taka hina háu bakka laugarinnar í burtu en í þeirra stað koma yfirfljótanlegir bakkar sem gera laugina aðgengilegri fyrir alla. „Þá á að stækka rýmið í austurátt. Gluggaveggurinn sem snýr út að andapollinum verður færður lengra út. Sú breyting gerir okkur kleift að ganga hringinn í kringum laugina sem ekki er hægt núna. Með þessari breytingu verður mun þægilegra að þrífa rýmið og ganga um það,“ segir Gísli Rúnar.
Innilaugin mun líta einhvernvegin svona út eftir breytingar. Mynd: Tillaga frá Form
Skólasund í lendingarlaug rennibrauta
Ýmsir hópar hafa nýtt sér aðstöðuna í innilauginni en að sögn Gísli Rúnars er nú verið að reyna að færa alla notendur til. „Því miður er hvergi pláss. Glerárlaugin er alveg þéttsetin og rúmlega það, svo það er ekki hægt að bjóða pláss þar,” segir Gísli Rúnar og heldur áfram; „Það er ofboðslega erfitt að púsla þessu öllu saman svo að allir haldi sínu. En skólasundið heldur sér allavega, það er búið að finna lausn á því.“ Segir hann að til standi að nýta lendingarlaugina hjá rennibrautunum sem kennslusvæði í vetur. Rennibrautin verður því lokuð á morgnana til að koma i veg fyrir að laugin kólni og hitastigið haldist gott fyrir skólasundið.
Sauna og nýir pottar í Glerárlaug
Endurbætur á innilaug Sundlaugar Akureyrar eru þó ekki einu stóru framkvæmdirnar sem fyrirhugaðar er í haust hjá sundlaugum Akureyrar því Glerárlaug er líka að fá andlitslyftingu. „Já það á að fara í útisvæðið þar. Pottarnir verða endurnýjaðir og það verður sett upp gufubað.“
Svona lítur innilaugin út í dag. Eftir breytingarnar verður hægt að ganga hringinn í kringum laugina.