Fara í efni
Mannlíf

Bjarki í sól og sumaryl í Lystigarðinum!

Flokkur fólksins heldur sumarfagnað í Lystigarðinum á Akureyri næsta sunndag. Óhætt er að segja að dagskráin sé áhugaverð og lokaatriðið verður að teljast merkilegt!

Fagnaðurinn hefst klukkan 15.00. Brynjólfur Ingvarsson, bæjarfulltrúi flokksins á Akureyri, fer með gamanmál, síðan slær Inga Sæland, formaður flokksins, á létta strengi og syngur nokkur lög. Alþingismaður flokksins í Norðausturkjördæmi, sá kunni Stuðmaður Jakob Frímann Magnússon, leikur því næst á fimbulorgan og stjórnar fjöldasöng og Katrín Sif Árnadóttir varaþingmaður syngur valin lög.

Það verður svo enginn annar en Bjarki Tryggvason sem slær botninn í dagskrána með því að syngja Í sól og sumaryl, þann gamla, góða smell. Gylfi Ægisson samdi lagið einmitt í sól og sumaryl í Lystigarðinum fyrir margt löngu eins og frægt er og Bjarki söng upprunalegu útgáfuna með hljómsveit Ingimars Eydal fyrir nákvæmlega hálfri öld - lagið var gefið út árið 1972.

Smellið hér til að heyra Bjarka syngja lagið á sínum tíma.