Bílakjallaramálið: beiðnin er út í hött
Ósk ríkisins um að ekki verði bílakjallari undir nýrri heilsugæslustöð við Þingvallastræti en bílastæðum ofanjarðar þess í stað fjölgað kom bæjaryfirvöldum á Akureyri í opna skjöldu. Skipulagsráð hafnaði erindinu á síðasta fundi, eins og Akureyri.net greindi frá í gær.
„Já, þetta kom okkur að sjálfsögðu mjög á óvart – algjörlega í opna skjöldu,“ sagði Þórhallur Jónsson formaður skipulagsráðs í dag um bréf Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna (FSRE), þar sem óskin var sett fram.
„Við höfum ekkert heyrt frá þeim í sex mánuði og svo kemur þetta erindi allt í einu, þar sem ekki er gert ráð fyrir bílakjallara en teiknaðar upp einhverjar vangaveltur um allt aðrar lausnir en búið er að hanna. Mikil vinna hefur verið lögð í verkefnið og þetta hefur verið langt ferli sem þeir hafa verið inni í allan tímann,“ segir Þórhallur við Akureyri.net.
„Við erum að setja heilsugæslustöðina á besta stað miðað við staðarvalsgreiningu, gert hefur verið ráð fyrir 40 stæðum í bílakjallara og ríkið hefur verið með í umræðunni um hvað þarf mikið af stæðum. Hluti þess að bæta aðgengi að heilsugæslustöð er að fólk geti gengið þurrum fótum frá bílnum og tekið lyftu. Við viljum koma í veg fyrir að fólk, til dæmis með hækju eða í hjólastól, þurfi að brjótast um í snjó og hálku. Mér finnst þessi afstaða ríkisins, sem allt í einu er lögð fram núna, alveg ótrúleg.“
Þórhallur segir Akureyri landlítið bæjarfélag og nær undantekningarlaust sé gert ráð fyrir bílakjallara við uppbyggingu sem þessa. Það sé orðin krafa. „Mér finnst það gjörsamlega út í hött þegar í ljós kemur að í 1700 fermetra heilsugæslustöð gerir ríkið ekki ráð fyrir bílakjallara en komi með tillögu þar sem gert er ráð fyrir að við tökum meira af tjaldstæðisreitnum en ákveðið hafði verið. Það er bara ekki í boði. Þeir verða einfaldlega að endurskoða þetta,“ sagði Þórhallur.
Frétt Akureyri.net í gær: Ríkið gerir ekki ráð fyrir bílakjallara