Fara í efni
Íþróttir

Bikarleikur Þórs/KA og FH beint á RÚV 2 í dag

Hulda Ósk Jónsdóttir, til hægri, og Margrét Árnadóttir í deildarleiknum gegn FH í Hafnarfirði í lok apríl - þegar Þór/KA vann 4:0. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA sækir FH heim í dag í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 17.15 á Kaplakrikavelli og verður í beinni útsendingu í sjónvarpinu, á RÚV 2.

Liðin hafa mæst einu sinni til þessa í sumar, í 2. umferð Bestu deildar Íslandsmótsins; Stelpurnar okkar í Þór/KA sigruðu þá 4:0 á heimavelli Hauka, þar sem Kaplakrikavöllur FH var ekki tilbúinn. Leiksins verður lengi minnst fyrir þær sakir að Sandra María Jessen gerði öll mörkin fjögur.

Liðin í Bestu deildinni koma inn í bikarkeppnina í 16 liða úrslitum og eiga því einn leik að baki. Þór/KA vann Tindastól 2:1 á Dalvíkurvelli og FH vann FHL 3:2; FHL er frá Austfjörðum, sameiginlegt lið Fjarðabyggðar, Leiknis og Hattar. Viðureignin á Dalvík var heimaleikur Tindastóls en ekki var hægt að leika á Sauðárkróki vegna vallaraðstæðna.

Á heimasíðu Þórs/KA er rifjað upp að Þór/KA og FH hafa mæst þrisvar í bikarkeppninni, alltaf á Kaplakrikavelli. 

Átta liða úrslit 2010:

  • FH - Þór/KA 1:5
    Rakel Hönnudóttir gerði 2 mörk og Inga Dís Júlíusdóttir, Mateja Zver og Vesna Elísa Smiljkovic eitt hver.

16 liða úrslit 2013:

  • FH - Þór/KA 0:5
    Arna Sif Ásgrímsdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir gerðu 2 mörk hvor í leiknum og Lillý Rut Hlynsdóttir gerði fimmta markið. Þór/KA lék til úrslita í bikarkeppninni þetta sumar en tapaði úrslitaleiknum 2:1 fyrir Breiðabliki.

16 liða úrslit 2021

  • FH - Þór/KA 1:1
    Arna Sif Ásgrímsdóttir gerði mark Þórs/KA. FH komst áfram eftir sigur í vítaspyrnukeppni, 5:4.

Sandra María Jessen fagnar einu fjögurra marka sinna í deildarleiknum gegn FH í Hafnarfirði í apríl.