Fara í efni
Mannlíf

Big Red-borgarinn fyrir Bigga rauða

Birgir Þór Þrastarson með annan tvíburanna sem fæddust 7. desember eftir 25 vikna meðgöngu. DJ grill býður upp á Big Red-góðgerðarborgarann til styrktar foreldrunum. Myndirnar eru af Facebook-síðum foreldranna.

Veitingastaðurinn DJ grill býður upp á góðgerðarborgarann Big Red á matseðlinum hjá sér á næstunni. Allur ágóði af sölu borgarans rennur til styrktar tvíburaforeldrunum Birgi Þór Þrastarsyni og Rannveigu Þorsteinsdóttur sem eignuðust drengi þann 7. desember, eftir 25 vikna meðgöngu, og hafa þurft að dvelja langdvölum syðra með tilheyrandi vinnutapi, kostnaði og miklu skipulagi og tilstandi vegna þessa óvænta rasks á fjölskylduhögunum.

Eins og gefur að skilja er það auðvitað ekki að ástæðulausu að góðgerðarborgarinn varð til og nafnið Big Red ekki tilviljun. Einn af þeirra uppáhalds, eins og það er orðað í auglýsingu, er Biggi rauði, eins og Birgir Þór er oft nefndur með tilvísun í hárlitinn. Hugsanlegt að spjöld frá fótboltaferlinum hafi eitthvað með viðurnefnið að gera líka. Það vill reyndar svo skemmtilega til að tengdapabbi Bigga, Þorsteinn Veigar Árnason, var lengi knattspyrnudómari og fyrir ekki svo löngu síðan fetaði Biggi í fótspor hans og gefur nú öðrum spjöld í stað þess að þiggja þau sjálfur.

„Þær eru fáar vikurnar sem hann hefur ekki droppað við síðan við opnuðum, fyrir að verða 15 árum!“ segir meðal annars í auglýsingunni frá DJ grilli þar sem eigendur ákváðu að bjóða upp á sérstakan borgara, Big Red, í anda Bigga rauða og mun allur ágóði af sölu borgarans fara í stuðning við fjölskylduna.

Nánar verður fjallað um tvíburana, eldri bróður þeirra og foreldrana á morgun.

Á MORGUNTILFINNINGARÚSSÍBANI TVÍBURAFORELDRA