Fara í efni
Fréttir

Barnaverndarúrræði opnað í Kotárgerði 20

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra undirrituðu samning um stuðning ríkisins við þetta tilraunaverkefni í febrúar. Með þeim eru, frá vinstri, bæjarfulltrúarnir Heimir Örn Árnason, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Halla Björk Reynisdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fjölskylduheimili á vegum Akureyrarbæjar, nýtt úrræði í greiningar- og þjálfunarvistun fyrir börn og foreldra þeirra hefur nú þegar tekið til starfa í Kotárgerði 20, en húsið verður formlega opnað af Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra á fimmtudaginn.

Akureyri.net fjallaði um þetta nýja úrræði á vegum bæjarins þegar það var í undirbúningi. Markmiðið með úrræðinu er að veita inngrip til skamms tíma þegar hefðbundin úrræði duga ekki til þar sem börn og ungmenni eru vistuð utan heimilis, vandi þeirra greindur og viðeigandi þjálfun fer fram sem miðar að því að styrkja forsjáraðila í uppeldishlutverki þeirra og aðstoða börn og ungmenni með viðeigandi hætti svo þau geti snúið heim aftur.

„Með úrræðinu er leitast við að grípa fyrr inn í mál barna og ungmenna en áður og koma í veg fyrir að vandi þeirra vaxi og að grípa þurfi til meiri íþyngjandi úrræða, svo sem langtímavistunar fjarri heimabyggð og að börn og ungmenni fari að sýna erfiða áhættuhegðun,“ sagði Elma Eysteinsdóttir, formaður velferðarráðs, þegar Akureyri.net sagði frá undirritun samnings um stuðning ríkisins við þetta verkefni.

Samningur um stuðning ríkisins við þetta úrræði var undirritaður um miðjan febrúar og í mars auglýsti umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar eftir fjögurra til fimm herbergja húsi til leigu til tveggja ára. Markmiðið var að starfsemin gæti hafist í húsinu í sumarbyrjun.

Fram kom við undirritun samningsins í febrúar að um væri að ræða tilraunaverkefni af hálfu Akureyrarbæjar til tveggja ára.