Fara í efni
Fréttir

Bæjó unga fólksins: Sanngjarnara símafrí

Mynd frá bæjarstjórnarfundi unga fólksins, síðastliðinn þriðjudag. Mynd: Akureyri.is

Árlegur bæjarstjórnarfundur unga fólksins fór fram síðasta þriðjudag, en þar gefst ungmennaráði tækifæri til þess að koma málefnum unga fólksins á framfæri til bæjarstjórnar Akureyrarbæjar. Alls voru 12 mál á dagskrá, og ber helst að nefna umræður um símafríin í skólunum, skólamáltíðir, aðbúnað í Hlíðarskóla, félagsmiðstöðvarnar, geðheilbrigði unga fólksins og einelti.

Símafríið er ekki eins allsstaðar

Rebekka Rut Birgisdóttir og París Anna Bergmann Elvarsdóttir fjölluðu um símareglurnar sem voru settar í skólum bæjarins síðastliðið haust fyrir hönd ungmennaráðs. Þær sögðu að það væri mjög misjafnt á milli skóla, hversu strangar reglurnar væru, allt frá því að kennarar tækju síma af krökkum í upphafi dags og geymdu í læstum kössum allan daginn, yfir í að krakkar væru jafnvel að búa til TikTok myndbönd í skólanum og kennarar tækju þátt. Þær kölluðu svo eftir sanngirni í því, að starfsfólk og kennarar skólanna væru ekki í sínum símum þegar börnunum væri það bannað.

Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við og taldi það myndi taka 3-4 ár að samræma þessar reglur og sjá þær virka. Hann sagði að kennarar og starfsfólk væru almennt ánægð með símafrí og sæju breytingu í hegðun nemenda. Varðandi það, að kennarar væru í símanum sjálfir þegar það ætti ekki við, sagðist hann vona að tekið væri á slíku innan veggja skólanna.

Betri og fjölbreyttari matur í skólanum

Umræða skapaðist um skólamáltíðir, en það var París Anna sem vakti máls á því. Hún kallaði eftir meiri fjölbreytni og meiri gæðum í skólamáltíðum, og minntist sérstaklega á fjölbreytni fyrir krakka með óþol. Þá tók hún dæmi um nemanda sem hún hafði rætt við sem má ekki borða hvað sem er, en hann fengi alltaf það sama að borða og upplifði að hann skipti ekki máli. Jana Salome Ingibjargar Jósepsdóttir brást við þessari umræðu f.h. bæjarstjórnar og sagði að það væri mikilvægt að börn með óþol upplifi sig ekki gleymd. Hún hvatti fræðslu- og lýðheilsuráð til þess að taka þetta föstum tökum. 

Geðheilbrigði unga fólksins og einelti

Góðar umræður sköpuðust um geðheilbrigði ungmenna og eineltisvandamál. Talað var um mikilvægi fræðslu og forvarna í báðum tilfellum, og umræðan um skólasálfræðinga kom aftur upp á borðið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi velti því upp, hvort það væri kominn tími til þess að skoða það aftur, að fá sálfræðinga inn í skólana. París Anna benti á að það væri mikilvægt að hugsa líka í lausnum en ekki bara hindrunum, það væri hægt að bæta þjónustu og stuðning með öðrum leiðum heldur en bara með sálfræðingum. 

Ýmislegt fleira var rætt á fundinum, en þau sem hafa áhuga á málefnum unga fólksins í bænum eru hvött til þess að lesa fundargerðina og láta sig málin varða. Öll voru sammála um mikilvægi þess að hlusta á raddir yngri kynslóðanna sem sátu fundinn. Hér er hægt að lesa fundargerðina frá fundinum.

Hér má lesa frétt um fundinn á heimasíðu Akureyrarbæjar og sjá fleiri myndir.