Fara í efni
Fréttir

Bæjarstjórn tjáir sig vegna skrifa kennara

Mynd af heimasíðu Akureyrarbæjar. Teikning eftir Guðnýju Nínudóttur.

Bæjarstjórn Akureyrar birti í kvöld yfirlýsingu á vef sveitarfélagsins þar sem „að gefnu tilefni“ er því skýrt komið á framfæri að í öllu starfi sem sveitarfélagið hafi með höndum sé undantekningarlaust haft að leiðarljósi að jafn réttur allra sé tryggður og fjölbreytileikanum sé fagnað.

Tilefnið er ekki nefnt en engum dylst að það er grein Helgu Dagg­ar Sverr­is­dótt­ur, kennara við Síðuskóla sem birt­ist í Morg­un­blaðinu í gær, og hefur verið harðlega gagnrýnd af mörgum. Þar velti Helga Dögg því fyrir sér hvort fræðsla á veg­um Sam­tak­anna 78 í grunn­skól­um gerðist brot­leg við 99. grein barna­vernd­ar­laga. Hún lýsti þeirri skoðun að fræðsla í skól­um um mál­efni trans­fólks væri móðgandi og van­v­irðandi og til þess fall­in að stefna heilsu og þroska barna í hættu.

Kennarasamband Íslands fordæmdi skrif Helgu í dag og það gerði einnig formaður Samtakanna 78.

Yfirlýsing bæjarstjórnar Akureyrar er svohljóðandi:

„Að gefnu tilefni vill bæjarstjórn Akureyrar koma því skýrt á framfæri að í öllu því starfi sem sveitarfélagið hefur með höndum, er undantekningarlaust haft að leiðarljósi að tryggja jafnan rétt allra og fagna fjölbreytileikanum. Það eru grunvallarmannréttindi að allir njóti sama réttar óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Lýðræðislegt og gott samfélag á borð við það sem við búum við hér á Akureyri byggir á því að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda, á það jafnt við um börn sem fullorðna. Mannréttindi leggja grunn að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélagsins alls, líkt og segir í mannréttindastefnu Akureyrarbæjar sem starfsfólki sveitarfélagsins ber að halda í heiðri í öllum sínum störfum.“

Grein Helgu Daggar birtist í Morgunblaðinu í gær sem fyrr segir, mbl.is hefur fjallað töluvert um viðbrögðin í dag. Hér eru tvö dæmi:

„Fólk sem veit ekkert um hvað það er að tala“

Fordæma viðhorf Helgu