Fara í efni
Fréttir

Bæjarstjórn: „Illa vegið að framhaldsskólum“

Verkmenntaskólinn á Akureyri. Hann stendur illa fjárhagslega og skólameistari sagði á dögunum að skólinn væri ekki rekstrarhæfur ef ekki kæmu til frekari fjárframlög. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Bæjarstjórn Akureyrar segir illa vegið að framhaldsskólum á Norðurlandi  í fjárlögum næsta árs og gagnrýnir að þeir skuli raða sér í neðstu sæti á lista yfir fjárframlög til framhaldsskóla landsins þegar prósentuhækkanir á milli ára eru skoðaðar.

Ályktun sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær er svohljóðandi:

„Bæjarstjórn Akureyrarbæjar telur illa vegið að framhaldsskólum á Norðurlandi þar sem þeir bera verulega skertan hlut frá borði í fjárlögum 2021 sé miðað við aðra framhaldsskóla landsins og að þeir raði sér í neðstu sætin séu prósentuhækkanir milli ára skoðaðar. Þá harmar bæjarstjórn að nú virðist vanta 150 milljónir króna á árinu 2021 til þess að Háskólinn á Akureyri geti staðið straum að verulegri aukningu stúdenta undanfarin ár, en óásættanlegt er ef skólinn fer að vísa nemendum frá námi vegna fjármagnsskorts. Framhaldsskólarnir og Háskólinn á Akureyri gegna mikilvægu hlutverki í sveitarfélaginu sem og í landshlutanum. Skólarnir skipta máli fyrir menntun í heimabyggð, atvinnutækifæri, byggðaþróun og almenn lífsgæði í landshlutanum. Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skora á ríkisstjórnina að standa ekki aðeins vörð um skólanna, heldur að skapa þeim svigrúm til þess að sækja fram."

Vert er að rifja upp að Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, sagði á dögunum skólann ekki rekstrarhæfan, fáist ekki aukið fjármagn. Skólann vanti 40 milljónir á þessu ári að óbreyttu og 60 á því næsta. „Ef við verðum áfram í þessari stöðu, sem við erum búin að vera allt þetta ár þá verður ekki hægt að versla inn á verklegar deildir í skólanum í janúar. Það er ekki af neinu að taka,“ sagði Sigríður Huld.