Bæjarráð leggst gegn auknum strandveiðum

Fulltrúar allra flokka nema Samfylkingar í bæjarráði Akureyrarbæjar hafa lagt inn athugasemd í samráðsgátt stjórnvalda til matvælaráðuneytisins vegna fyrirhugaðra breytinga á reglugerð um strandveiðar þar sem fram kemur að þau geti ekki stutt ráðstafanir sem auka hlut strandveiða á kostnað annarra úrræða innan þeirra 5,3% aflahlutdeildar sem ríkið fer með forræði yfir, einkum og sér í lagi í ljósi mikilvægis byggðakvóta fyrir brothættar byggðir.
Að umsögninni standa fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, L-lista, Miðflokks, Vinstri grænna og óháður fulltrúi í bæjarráði, en hún beinist að fyrirhuguðum breytingum á reglugerð um strandveiðar sem matvælaráðuneytið kynnti til samráðs 13. mars í samráðsgátt stjórnvalda. Stjórn Hafnasamlags Norðurlands hefur sent inn samhljóða athugasemd við fyrirhugaða reglugerðarbreytingu.
Fyrirsjáanleiki mikilvægur
Í umsögninni er meðal annars lög áhersla á mikilvægi fyrirsjáanleika um ráðstafanir innan þessa kerfis og til lengri tíma í senn. Þar er bent á að þau sem að athugasemdunum standa telji óljóst hvernig reglugerðin ein og sér getur tryggt 48 daga til strandveiða þegar ekkert liggi fyrir um aukinn afla sem óhjákvæmilega þurfi að ráðstafa til strandveiða til að uppfylla loforð stjórnvalda um þessa 48 daga til veiðanna. Aðeins hafi komið fram af hálfu atvinnuvegaráðherra í umræðum að aukningin verði tekin innan þeirrar 5,3% aflahlutdeildar sem ríkið fer með forræði yfir.
Vinnur gegn markmiðum byggðakvótans
Bent er á mikilvægi byggðakvóta fyrir brothættar byggðir og að eðli strandveiðanna, sem einungis séu stundaðar yfir sumartímann, í fæstum tilfellum þannig að þær stuðli að fjölgun íbúa með fasta búsetu í brothættum byggðum og að stór hluti afla strandveiðibáta sé fluttur til vinnslu erlendis, vinni í raun gegn markmiðum byggðakvótans sem stuðli aftur á móti að aukinni verðmætasköpun í landvinnslu og auknum útsvarstekjum sveitarfélaga.
Athugasemd áðurnefndra fulltrúa er í heild eftirfarandi:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, L-lista, Miðflokks, Vinstri grænna og óháður fulltrúi í bæjarráði Akureyrarbæjar veita eftirfarandi umsögn um fyrirhugaðar breytingar á reglugerð um strandveiðar sem matvælaráðuneytið kynnti til samráðs þann 13. mars sl., sbr. mál nr. 58/2025 í samráðsgátt stjórnvalda.
Breytingar á reglugerðinni eru lagðar til í tengslum við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að tryggja 48 daga til strandveiða. Framangreindir fulltrúar í bæjarráði Akureyrarbæjar telja óljóst hvernig reglugerðin ein og sér getur tryggt 48 daga til strandveiða þegar ekkert liggur fyrir um aukinn afla sem óhjákvæmilega þarf að ráðstafa til strandveiða til að uppfylla loforð stjórnvalda. Aðeins hefur komið fram af hálfu atvinnuvegaráðherra í umræðum að undanförnu að aukningin verði tekin innan þeirrar 5,3% aflahlutdeildar sem ríkið fer með forræði yfir.
Afar mikilvægt er að fyrirsjáanleiki ríki um ráðstafanir innan þessa kerfis og til lengri tíma í senn. Ofangreindir fulltrúar í bæjarráði Akureyrarbæjar geta því ekki stutt ráðstafanir sem auka hlut strandveiða á kostnað annarra úrræða innan 5,3% kerfisins, einkum og sér í lagi í ljósi mikilvægis byggðakvóta fyrir brothættar byggðir. Byggðakvótinn hefur jákvæð áhrif þar sem hans nýtur við og stuðlar að stöðugri atvinnu og fjölbreyttu lífi í sjávarbyggðum allan ársins hring, til að mynda í Grímsey. Þannig stuðlar byggðakvótinn að aukinni verðmætasköpun í landvinnslu og auknum útsvarstekjum til sveitarfélaga. Strandveiðar eru einungis stundaðar yfir sumartímann og stuðla í flestum tilfellum ekki að fjölgum íbúa með fasta búsetu í brothættum byggðum. Stór hluti strandveiðisjómanna á ekki lögheimili í því sveitarfélagi sem róið er út frá. Þá er stór hluti strandveiðiafla fluttur til vinnslu erlendis og greiningar sýna einnig að launahlutfall er töluvert lægra í strandveiðum en öðrum veiðum sem skilar sér í minni útsvarstekjum til sveitarfélaga. Í sveitarfélaginu Akureyrarbæ reiðir fjöldi manns sig á störf í sjávarútvegi og afleiddum greinum og því er brýnt að allar breytingar á strandveiðikerfinu taki mið af því að vernda þessi störf og tryggja áframhaldandi atvinnustarfsemi á svæðinu.
Ofantaldir fulltrúar í bæjarráði Akureyrarbæjar eru því ekki fylgjandi að aukið verði við strandveiðar heldur verði frekar lögð áhersla á að fiskveiðar og afleidd áhrif þeirra verði eftir í sjávarbyggðum. Á því hefur orðið misbrestur með auknu vægi strandveiða. Að því leyti taka fulltrúar flokkanna í bæjarráði Akureyrarbæjar, sem taldir eru upp hér að ofan, undir umsagnir varðandi þetta mál frá bæði Ísafjarðarbæ og sveitarfélaginu Skagafirði sem hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda.
Undir athugasemdina ritar Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fyrir hönd áðurnefndra fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrarbæjar.