Fara í efni
Menning

„Bæjarfélag sem hlúir að listafólki verður ríkt“

Anna Richardsdóttir hlaut heiðursviðurkenningu og hélt skemmtilega ræðu um mikilvægi þess að lifa skapandi lífi. Mynd: RH

Á Vorkomu Akureyrarbæjar í gær voru veittar nokkrar viðurkenningar í ólíkum flokkum. Þrjú fengu heiðursviðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu menningar og samfélagsins, en það voru þau Rafn Sverrisson trommuleikari, Anna Richardsdóttir listakona og Þórarinn Hjartarson fyrir fjölbreytt framlag til menningarlífs í bænum. Anna hélt skemmtilega og lifandi ræðu þegar hún tók við sinni viðurkenningu. „Ég held að bæjarfélag sem hlúir að grasrótarstarfi í listum, eignist listafólk sem verður alveg einstakt í sinni röð. Ef bæjarfélagið skapar rými og setur fjármuni og tækifæri til listafólks, mun það hafa af því mikinn ávinning,“ sagði Anna.

 

„Grasrótin er sterk, vex á ólíklegustu stöðum, jafnvel við erfiðar aðstæður. En ef hún fær næringu og vatn verður grasið sem vex upp alveg einstakt. Það er eins með okkur listafólkið,“ sagði Anna Richardsdóttir. Mynd RH

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri veitti heiðursviðurkenningarnar á Vorkomunni. Hér er það Rafn Sverrisson trommuleikari sem tekur við sinni viðurkenningu. Mynd: RH

Þórarinn Hjartarson fékk heiðursviðurkenningu fyrir fjölbreytt starf í þágu menningar og samfélags í bænum. Mynd: RH

Viðurkenning Húsverndarsjóðs Akureyrar

Húsin við Aðalstræti 54 og 54a, og eigendur þeirra, hlutu viðurkenningu Húsverndarsjóðs Akureyrar árið 2025 fyrir viðgerðir á síðustu árum sem gerðar hafa verið í góðu samræmi við aldur og gerð húsanna. Eigandi Aðalstrætis 54 er Zontaklúbbur Akureyrar en eigendur Aðalstrætis 54a eru An-Katrien Lecluyse og Leo Broers.

Mikið líf var við húsin við Aðalstræti 54 og 54a í gær, en vegna Eyfirska safnadagsins var opið á söfnunum í kring og fjöldi fólks úti í góða veðrinu í Innbænum. Húsin voru glæsileg, enda eigendurnir nú handhafar viðurkenningar fyrir að hlúa vel að þeim. Mynd: RH

Þóra Ákadóttir tók við viðurkenningu Húsverndarsjóðs fyrir hönd Zonta-klúbbs Akureyrar, sem á rauða húsið við Aðalstræti 54. Mynd: RH

Fjölskyldan í Aðalstræti 54b með viðurkenninguna sína. Leo Broers, An-Katrien Lecluyse og börn þeirra, Sindri og Lóa.  Mynd: RH

Í gær var sagt frá því á Akureyri.net að Egill Logi Jónasson hafi verið útnefndur bæjarlistamaður Akureyrarbæjar, Guðmundur Tawan Víðisson fatahönnuður verði sumarlistamaður bæjarins og að Adam Ásgeir Óskarsson og forsvarsfólk Hinsegin hátíðar í Hrísey hafi hlotið mannréttindaviðurkenningu.

 

Adam Ásgeir Óskarsson fékk mannréttindaviðurkenningu fyrir hjálparstarf við ABC skólann í Búrkína Fasó. Mynd: RH

Forsvarsfólk Hinsegin hátíðar í Hrísey fengu mannréttindaviðurkenningu. Það eru þau Linda María Ásgeirsdóttir, Ingimar Ragnarsson, Kristín Björk Ingólfsdóttir og Sigurður Þorri Gunnarsson. Til þess að taka við viðurkenningunni komu Linda María og sonur Ingimars, Gabríel Ingimarsson ásamt Kristínu Björk. Mynd: RH

Bæjarlistamaður Akureyrarbæjar 2025 er Egill Logi Jónasarson. Mynd: RH

Tónlistaratriði á Vorkomunni voru í höndum Sigrúnar Maríu Pétursdóttur og Mahaut Ingiríðar Matharel sem söng við undirleik Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur.

 

Sigrún María Pétursdóttir flutti frumsamið lag, Autumn Leaves. Mynd: RH

Mahaut Ingiríður Matharel söng við undirleik Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur, en þær fluttu fimm stutt lög undir yfirskriftinni 'Allt er ömurlegt'. Mynd: RH