Fara í efni
Fréttir

Aukin umsvif atnorth og starfsfólki fjölgar

Athafnasvæði atnorth á Akureyri. Höfuðstöðvar Norðurorku efst til hægri á myndinni, norðan Hlíðarfjallsvegar. Myndin var tekin í desember. Mynd: Þorgeir Baldursson

Stækkun hátæknigagnavers atNorth á Akureyri kallar á aukinn mannafla og fyrirtækið auglýsir nú eftir starfsfólki. Gert er ráð fyrir að þeim fjölgi um 12 fyrir sumarið og að þá verði á þriðja tug starfandi í verinu. Daglega má svo alla jafna gera ráð fyrir öðrum eins fjölda verktaka í gagnaverinu, að sögn stjórnenda, en á næstu tveimur árum verði þeir þó mun fleiri.

Fjölgun starfa er til komin vegna aukinna umsvifa gagnaversins og stækkunar þess, en bein fjárfesting atNorth vegna stækkunar gagnaversins á Akureyri er fyrirhuguð um 12 til 13 milljarðar króna, að sögn Erlings Guðmundssonar, framkvæmdastjóra rekstrar atNorth. Er þá ótalin fjárfesting viðskiptavina fyrirtækisins í búnaði sem hýstur er í gagnaverinu, en hún fer langleiðina í hundrað milljarða.

Árni Björnsson, rekstrarstjóri gagnaversins á Akureyri, til vinstri, og Erling Guðmundsson, framkvæmdastjóri rekstrar atNorth. 

Allir fá ítarlega þjálfun

„Ætli það séu ekki ein 26 störf sem við erum núna með í auglýsingu á Íslandi. Þar af eru 12 á Akureyri,“ segir Erling og bætir við að atNorth sé líka að leita að fleiri starfsmönnum í gagnaver sitt í Reykjanesbæ. „Þetta er nokkur fjöldi og áskorun að fylla í allar stöður, en við teljum okkur hafa margt að bjóða sem laðar að hæft fólk.“

Meðal þess sem Erling nefnir er starfsþjálfun sem allt starfsfólk fær og nær til þeirrar tækni og vinnulags sem fremst stendur í heiminum í starfsemi gagnavera og gervigreindarþjónustu. „Þetta er til að tryggja gæði þjónustunnar og samræmi á milli starfsstöðva, en við bjóðum líka möguleikann á að færa sig á milli gagnavera. Til dæmis ef maki einhvers hyggur á nám í Danmörku þá er möguleg tilfærsla þangað.“

Hann segir leitað að fólki í margvísleg störf, en meðal annars sé horft til þess að ráða verkefnastjóra, rafvirkja með háspennuréttindi, rafmagnstæknifræðinga, vélstjóra, flugvirkja, fólk með reynslu af kælitækni og tæknimenn af ýmsum toga, ýmist fólk sem býr reynslu eða vill læra. „Til dæmis einhvern sem hefur unnið sem kerfisstjóri eða er sjálflærður í tölvumálum. Það fá allir fremstu þjálfun sem er í boði í heiminum í dag í rekstri gagnavera,“ segir Erling, en þjálfunin tekur þrjú ár.

 

Tölvugerð mynd af húsum atnorth við Hlíðarfjallsveg þegar það það nýjasta verður tilbúið – austasta húsið, lengst til hægri á myndinni. Mynd: atnorth

Sækir þjónustu í nærumhverfið

„Við fjárfestum í mannauði á hverjum stað og á okkar svæði byggist þannig upp þekking og verðmæt störf. Það er mjög hröð þróun í gagnaversiðnaðinum á heimsvísu enda mikill vöxtur fram undan. Núna er gervigreindarbyltingin í gangi og við gefum fólki tækifæri til að vinna í fremstu víglínu hverju sinni með viðskiptavinum okkar og læra það allra nýjasta.“

atNorth leggur mikið upp úr því að sækja starfsfólk og þjónustu í nærumhverfi hvers gagnavers, segir Árni Björnsson, rekstrarstjóri versins á Akureyri, og því verða líka til verðmæt afleidd störf.  Árni segir að núna starfi til dæmis vel yfir hundrað manns að stækkun gagnaversins.

„Svo miklum umsvifum fylgja að sjálfsögðu áskoranir, uppbygging hefur verið hröð en hér hefur gengið afskaplega vel og ljóst að Akureyri á afar öfluga verktaka og býr að sterkum kjarna í atvinnulífinu. Hér eru hæf verktakafyrirtæki sem standast þær áskoranir sem verkefnin bjóða upp á,“ segir hann.

Vilja nýta hliðarafurðir

Þó að tryggt sé að aldrei verði þjónusturof hjá gagnaverum, svo sem með varaafli, komi til straumrofs á starfssvæði þeirra, þá þýðir það ekki að ganga þurfi vaktir í starfseminni. Erling Guðmundsson segir að bróðurpartur starfanna sé unninn á dagvinnutíma. „En svo getur þurft að bregðast við komi eitthvað upp á, en þá er kallað til það starfsfólk sem er á útkallsvakt. Kerfin eru hins vegar hönnuð þannig að ef eitt dettur út þá tekur annað við.“

Í gagnaverinu er veitt fjölbreytt þjónusta, allt frá vistun mikilvægra gagna til flókinna útreikninga, frá veðurlíkönum yfir í gervigreindarþjónustu. „Allt er þetta þjónusta sem gengur fyrir sjálfbærri orku og er afhent um ljósleiðara. Því er umhverfisáhrifum haldið í lágmarki,“ segir Erling og bætir við að í því felist líka verðmæti fyrir fjölmörg fyrirtæki.

„Og því til viðbótar horfum við líka til þess að önnur starfsemi geti nýtt sér hliðarafurðir starfseminnar, eins og Hringvarmi gerir á Akureyri með nýtingu glatvarma til matvælaframleiðslu. Við erum mjög opin fyrir öllum hugmyndum um samstarf af þeim toga.“