Fara í efni
Fréttir

Aukin þjónusta við nýrnasjúka í bígerð

Mynd af vef Sjúkrahússins á Akureyri.

Undirbúningur er hafinn fyrir bætta þjónustu við nýrnasjúklinga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en talsverður fjöldi fólks sem búsettur er á Norðausturlandi hefur hingað til þurft að sækja þjónustu suður yfir heiðar og hitta nýrnalækni. Gera má ráð fyrir að 20-25 manns af svæðinu ferðist suður í þeim erindagjörðun í hverjum mánuði. Frá þessu er greint á vef Sjúkrahússins og sagt frá því að nú sé formlega hafinn undirbúningur að því að framvegis muni nýrnalæknar frá Landspítalanum koma norður á sex vikna fresti og dvelja hér tvo daga í senn. 

Í frétt Sjúkrahússins segir meðal annars.

„Þetta er mikið fagnaðarefni, enda hefur þetta verið stefnan allt frá því að blóðskilun hófst á SAk fyrir um áratug. Við viljum auðvitað eftir fremsta megni geta boðið fólki af okkar starfssvæði upp á þjónustu hér, fremur en að það þurfi að leggja á sig ferðalag suður“ segir Guðjón Kristjánsson, forstöðulæknir lyflækningadeildar SAk.

„Það er að sjálfsögðu gleðiefni og vert að taka fram að það er algjört lykilatriði að á SAk eru starfandi mjög öflugir hjúkrunarfræðingar, sem eru og verða mikilvægur hluti af þeirri teymisvinnu sem nauðsynleg er.“ segir Fjölnir Elvarsson, nýrnalæknir á LSH.

Markmið verkefnisins

Markmiðið er að Móttaka hjúkrunarfræðings verði opin vikulega/hálfsmánaðarlega þess á milli. „Í starfi okkar hjúkrunarfræðinga verður áhersla lögð á forvinnu, skimanir, símtöl, fræðslu og ráðgjöf. Auk þess munum við sjá um hluta af eftirfylgni fyrir og eftir nýrnaígræðslu, í samvinnu við sérfræðinga. Við teljum að þessi samvinna muni auka lífsgæði bæði sjúklinga og aðstandenda þeirra. Þá er verkefnið ekki síður mikilvægt fyrir fagfólk, enda eykur öflug samvinna LSH og SAk sérþekkingu og þjónustu í heimabyggð“ segir Jóhanna María Oddsdóttir, nýrnahjúkrunarfræðingur.

Ávinningurinn margvíslegur

Ávinningur verkefnisins er margvíslegur. „Við teljum að með þessum hætti getum við bætt þjónustu við einstaklinga með nýrnasjúkdóma og fyrir þá einstaklinga sem nú þegar hafa þurft á þjónustu nýrnalækna að halda. Ásamt því að draga úr kostnaði, bæði fyrir skjólstæðinga og samfélagið, getum við létt á legudeildum með færri innlögnum og/eða útskrifað einstaklinga fyrr af legudeild, segir Sólveig Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri blóðskilunar SAk.

Með því að leggja af stað í svona sameiginlegt verkefni með það að leiðarljósi að auka lífsgæði sjúklinga og aðstandenda má gera ráð fyrir fjölbreyttum ávinningi fyrir samfélagið, bæði fyrir skjólstæðinga, fagfólk og hið opinbera.