Aukin neyð og aukin spurn eftir aðstoð
Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis treystir á framlög frá fyrirtækjum og félagasamtökum á svæðinu, en efnir einnig til söfnunar, meðal annars með sölu á velferðarstjörnunni.
Fram kemur í umfjöllun á vefsíðu Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis að fulltrúar sjóðsins hafi séð aukna spurn eftir aðstoð undanfarna mánuði. Þar er vitnað í Herdísi Helgadóttur, formann stjórnar sjóðsins, sem segir: „Við sjáum að svigrúmið hjá fólki er minna, það þarf minna til að heimilisbókhaldið fari í mínus.“ Herdís segir hópinn sem leitar til sjóðsins eftir aðstoð stækka stöðugt og því miður hafi það verið svo að sjóðurinn hafi ekki getað aðstoðað fólk eins oft eða mikið og æskilegt hefði verið.
Herdís segir velviljann í samfélaginu ómetanlegan og að yfirleitt hafi gengið vel að safna fyrir jólin. Hún bendir þó á að nú hafi allt hækkað og fólk fái minna fyrir peninginn. Því sé afar mikilvægt að nú safnist meira en áður.
Hannað á Glerártorgi, framleitt í Slippnum
Í frétt sjóðsins er fjallað um velferðarstjörnuna, en hluti af söfnun sjóðsins er með sölu á henni. Kristín Anna Kristjánsdóttir og Elva Ýr Kristjánsdóttir, verkefnastjórar markaðsmála á Glarártorgi hönnuðu stjörnuna, skraut úr stáli með mörgum hjörtum sem tengjast og eru tilvísun í að velferð er verkefni okkar allra, eins og slagorð sjóðsins er. Slippurinn tók þátt í verkefninu með framleiðslu á stjörnunni.
Starfsemi Velferðarsjóðsins verður kynnt á viðburði á Glerártorgi á laugardag kl. 13-15, ásamt því að sala á velferðarstjörnunni hefst. Hún er í boði í takmörkuðu upplagi, og geta kaupendur annaðhvort hengt hana á þar til gert styrktartré á Glerártorgi eða tekið hana með heim.
„Svo er það auðvitað líka tilvalin jólagjöf,“ segir einnig í frétt sjóðsins. Þegar sala á velferðarstjörnunni hófst fyrir jólin í fyrra var spurn eftir fallegum umbúðum utan um skrautið og nú hefur því verið svarað með fallegum gjafapokum sem saumaðir eru í dagþjálfuninni á öldrunarheimilinu Hlíð.
Leggja áherslu á peningastyrki
Gjafasafnanir hafa verið vinsælar þar sem fólk gefur jólagjafir undir þar til gert tré til að styðja við efnaminni fjölskyldur, en Herdís segir það flókið í framkvæmd að deila út gjöfum á sanngjarnan hátt. „Það verða alltaf einhver sem fá draumagjöfina og önnur sem fá lítið sem ekkert sem hentar. Einnig er það ákveðinn umhverfissóðaskapur því við þurfum að opna allar gjafirnar áður en þeim er útdeilt.“
Stjórn sjóðsins beinir því þess vegna til fólks að styrkja frekar með fjárframlögum eða kaupum á velferðarstjörnunni. Stjórn sjóðsins er þakklát fyrir þann velvilja sem fólk sýnir með því að leggja starfinu lið.
Þeim sem vilja styrkja jólaaðstoð Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis er bent á eftirfarandi söfnunarreikning:
- Kt.: 651121-0780
- Reikn.: 0302-26-003533
Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis er samstarf Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og Rauða krossins við Eyjafjörð.