Fara í efni
Fréttir

Áttu eitthvað fyrir ABC skólann í Búrkína Fasó?

Nemendur ABC skólans í Búrkína Fasó. Mynd: Facebook
ABC Barnahjálp á Íslandi stofnaði skóla í Búrkína Fasó árið 2008, en hjónin Haraldur Pálsson og Jóhanna Sólrún Norðfjörð á Akureyri eru framkvæmdastjórar skólans og hafa sinnt hjálparstarfi þar um árabil, ásamt vinum og fjölskyldu. Adam Ásgeir Óskarsson bættist í hópinn fyrir tveimur árum og hefur unnið með þeim að því að bæta aðstæður í skólanum og er nú á leið í sína fimmtu ferð til Búrkína. Saman hafa þau safnað ýmsum hlutum heima á Íslandi til þess að bæta hag nemendanna, sem eru tæplega 1.300 börn frá fjögurra ára aldri upp á framhaldsskólastig. 
 
Það vantar alltaf meira, en við höfum til dæmis verið að færa unga fólkinu sem klárar skólann fartölvur að gjöf við útskrift.
 
„Nú erum við að safna í gám sem við ætlum að senda út í lok janúar,“ segir Jóhanna Sólrún, en þremenningarnir hafa auglýst á Facebook síðum sínum eftir aðstoð. „Við erum að safna saman alls konar hlutum til þess að bæta aðbúnað nemenda og starfsfólks. Nýlega var lokið við að stækka framhaldsskólann og vantar meðal annars borð og stóla í nýju stofurnar, auk þess er komið að endurnýjun á eldri búnaði.“

Úreltar tölvur á Íslandi geta verið ómetanleg gjöf í Afríku

Adam hefur haft veg og vanda af því að bæta tækjabúnað skólans, tölvur og annað. „Við fengum á sínum tíma tölvur að gjöf frá VMA og Vodafone til dæmis, þegar var verið að skipta út tækjum þá þeim. Fartölvur, spjaldtölvur og gamlir snjallsímar nýtast víða í skólanum og á bókasafni sem verið er að endurnýja og bæta við tölvuaðstöðu,“ segir Adam. „Það vantar alltaf meira, en við höfum til dæmis verið að færa unga fólkinu sem klárar skólann fartölvur að gjöf við útskrift. Það er eitthvað sem þau gætu aldrei orðið sér út um sjálf, slík er fátæktin í landinu.“ Búrkína Fasó er eitt af fimm fátækustu löndum heims, og Adam segir að það sé yfirleitt gríðarlegt sjokk fyrir fólk að koma þangað og upplifa aðstæður fólks. 

 

Nemendur í ABC skólanum með tækjagjafir. Til hægri vinnur Adam að tækjamálum í ABC skólanum. Myndir úr einkasafni.

En það er ekki bara tækjabúnaður sem vantar. „Margt annað myndi koma að góðum notum eins og t.d. allt sem snýr að skák og íþróttastarfi, s.s. fimleikadýnur og áhöld. Íþróttaföt í öllum stærðum og skór, sérstaklega stórar stærðir,“ segir Haraldur. „Einnig vantar búnað fyrir tónlistarskólann, en við skólann er mjög öflug og góð tónlistarkennsla.“ Adam bætir við að það vanti sérstaklega skákklukkur, en öflug skákkennsla fer fram í skólanum.

Stórbætt vatnsveita

Haraldur og Jóhanna reka Áveituna, pípulagningafyrirtæki á Akureyri. Þegar þau komu fyrst í ABC skólann, sá Haraldur mikil tækifæri til þess að bæta aðgang að vatni. „Þegar við komum þarna var fólkið að ganga langar vegalengdir með ílát á höfðinu eða með olítunnur á hjólum til þess að sækja vatn í uppsprettur,“ segir Haraldur. „Búið var að bora fyrir vatni á skólalóðinni og sáum við að grunnvatn var ekki langt undan, þannig að við gátum komið fyrir dælum og nú er rennandi vatn í boði. Einnig höfum við útbúið góð ræktunarlönd og akra þar sem við höfum lagt áveitulagnir og borað eftir vatni. Nú er því hægt að rækta maís og allskonar grænmeti og ávexti fyrir nemendur skólans.“  

 
 
T.v. Jóhanna og Haraldur. T.h. Handlagnir sjálfboðaliðar Áveitunnar með góðri aðstoð undirbúa vatnstank. Myndir: ABC barnahjálp
„Börnin hafa aðgang að heilsugæslu og þar stendur til að stækka og bæta aðstöðuna og vantar ýmis áhöld,“ segir Jóhanna. „Við skólann er einnig saumadeild og ef einhverjir lúra á einföldum saumavélum þá munu þær koma sér vel.“
 
Byrjað verður að lesta gáminn á Akureyri næstu daga og verður hann síðan fluttur til Reykjavíkur þar sem klárað verður að fylla hann áður en hann verður sendur af stað til Búrkína Fasó, þannig að ef lesendur eiga eða vita um eitthvað sem gæti nýst í skólanum er um að gera að hafa samband sem fyrst.
 
Hægt er að hringja beint í þremenningana í þessi símanúmer:

  • Adam - 8986475
  • Haraldur - 8996336
  • Jóhanna - 8620350
 
Akureyri.net mun birta ítarlegra viðtal við Harald, Jóhönnu og Adam um hjálparstarfið í Búrkína Fasó og ABC skólann á næstunni.