Atli tilnefndur til Emmy-verðlaunanna
Akureyringurinn Atli Örvarsson, kvikmyndatónskáld, hefur verið tilnefndur til bandarísku Emmy-sjónvarpsverðlaunanna fyrir tónlistina í þáttaröðinni Silo sem sýnd er á Apple TV. Tilkynnt var um tilnefningarnar í Los Angeles í dag. Verðlaunin verða afhent þar í september.
Atli er tilnefndur fyrir frumsamda tónlist við leikið efni. Fyrr á árinu fékk Atli bresku BAFTA-verðlaunin fyrir tónlistina í þessum sömu þáttum.
Tónskáld sem tilefnd eru til Emmy verðlauna fyrir frumsamda tónlist við leikið efni eru þessi – og nöfn þáttaraðanna:
- Martin Phipps – The Crown - Sleep, Dearie Sleep
- David Fleming – Mr. & Mrs. Smith - First Date
- Siddhartha Khosla – Only Murders In The Building
- Jeff Toyne – Palm Royale - Maxine Saves A Cat
- Atticus Ross, Leopold Ross og Nick Chuba – Shōgun - Servants Of Two Masters
- Atli Örvarsson – Silo - Freedom Day
- Daniel Pemberton og Toydrum – Slow Horses - Strange Games
Silo er vísindaskáldskapur og fjallar um viðleitni fólks til að lifa af neðanjarðar eftir að yfirborðið er orðið óbyggilegt. Um mitt síðasta ár var þetta vinsælasta streymi-sería í heimi – þá var meira horft á hana en nokkra aðra sem var í boði á streymisveitum veraldar.