Fara í efni
Menning

Atli tilnefndur til BAFTA-verðlauna

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringurinn Atli Örvarsson kvikmyndatónskáld var í gær tilnefndur til BAFTA verðlaunanna fyrir frumsamda tónlist við leikið efni. Þar ræðir um þáttaröðinni Silo sem sýnd er á Apple TV. 

BAFTA eru bresku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin, stundum kölluð bresku Óskarsverðlaunin. Tilnefningar í sjónvarpshluta verðlaunanna voru tilkynntar í gær.

„Þetta er mikill heiður og mín fyrsta BAFTA tilnefning,“ sagði Atli í samtali við Akureyri.net. „Ég færði mig um set til London fyrir einu og hálfu ári síðan til að vinna við þessa seríu og því er sérstaklega ánægjulegt að uppskera þessa viðurkenningu.“

  • Eftir að Atli þakkaði fyrir tilnefninguna með því að skrifa á Instagram, Thank you BAFTA, Takk BAFTA, skrifaði aðalleikkona þáttanna, Rebecca Ferguson: No, thank you Atli!!!!! You incredible creator and artist! Nei, þakka þér Atli!!!!! Þú ótrúlegi skapari og listamaður.

Silo er vísindaskáldskapur og fjallar um viðleitni fólks til að lifa af neðanjarðar eftir að yfirborðið er orðið óbyggilegt. Um mitt síðasta ár var þetta vinsælasta streymi-sería í heimi – þá var meira horft á hana en nokkra aðra sem var í boði á streymisveitum veraldar.

Atli verður áfram með aðsetur í London ásamt fjölskyldu sinni næstu misserin vegna þessa verkefnis. Vinna við næstu þáttaröð er um það bil að hefjast.

Í flokki Atla voru einnig tilnefnd: Adiescar Chase fyrir Heartstopper (See-Saw Films / Netflix), Blair Mowat fyrir Nolly (Quay Street Productions  / ITVS) og Natalie Holt fyrir Loki (Marvew Studios / Disney+)