Átelur vinnubrögð vegna hreyfikorts
Hreyfikort fyrir eldri borgara hefur komið til umræðu og afgreiðslu í fræðslu- og lýðheilsuráði, bæjarráði í nóvember og í framhaldinu samþykkti bæjarstjórn Reglur Akureyrarbæjar um gjöld og afslátt vegna Hreyfikorts með 11 samhljóða atkvæðum í byrjun desember. Þetta ferli fór fram án aðkomu öldungaráðs sem er ráðgefandi samráðsvettvangur og „virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins,“ að því er stendur í samþykkt fyrir ráðið frá 2023.
Öldungaráðið fjallaði um þessa meðferð málsins á fundi skömmu fyrir jól. Ráðið „átelur þessi vinnubrögð harðlega og óskar þess að þau verði ekki endurtekin. Til að tryggja það telur ráðið eðlilegast að fulltrúi frá ráðinu sitji fundi nefnda og ráða hjá bænum þegar málefni eldri borgara eru þar til umræðu og afgreiðslu,“ segir meðal annars í bókun öldungaráðs frá 18. desember.