Fara í efni
Fréttir

Átak til þess að sporna við ofbeldi meðal barna

Um helmingur þeirra 15 starfsmanna sem munu sinna samfélagslöggæslu ásamt stjórnendum. Mynd: Facebooksíða Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur fengið fjármagn til þess að bæta við fimm stöðugildum og hefja átak í samfélagslöggæslu. Átakið felur í sér aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna. Með fjárveitingu dómsmálaráðuneytis er lögð áhersla á samfélagslöggæslu, sýnilega löggæslu og viðbragð auk þess sem áhersla er að efla eftirfylgni með brotum barna og ungmenna.

Sagt er frá á Facebook síðu umdæmisins, en þar segir að verkefnið nái yfir allt umdæmið frá Tröllaskaga og austur að Bakkafirði og taka lögreglumenn í öllu umdæminu þátt í verkefninu. Tveir lögreglumenn á Tröllaskaga gegna sérstaklega hlutverki í samfélagslöggæslu, tveir lögreglumenn á Húsavík og sex lögreglumenn á Akureyri sem allir tilheyra almennri löggæslu og ganga vaktir. Þá koma verkefnastjóri, varðstjórar, rannsóknarlögreglumenn, aðalvarðstjórar og saksóknarfulltrúar einnig að verkefninu enda er markmiðið að ná utan um mál barna á öllum stigum.

Við löggæsluna bætast fimm stöðugildi í því skyni að bæta upp þau stöðugildi sem nú munu sinna verkefni samfélagslöggæslu sérstaklega. Hópurinn sem sinnir samfélagslöggæslu í mismunandi starfshlutfalli telur um 15 manns og hefur þegar hafist handa við verkefnið. Í tilkynningunni segir að samfélagið muni finna vel fyrir þessum áherslum nú þegar lögreglan mun stíga enn meira út til borgaranna og vinna að því jöfnum höndum að byggja upp traust gagnvart börnum og ungmennum og samfélaginu í heild. 

Verkefninu hefur verið tryggt fjármagn á þessu ári og leggur embættið áherslu á að fjármagnið verði tryggt verkefninu til framtíðar.