Fara í efni
Íþróttir

Arnór aðalþjálfari langt á undan áætlun!

Spennandi verkefni! Markus Pütz er lengst til vinstri, þá Arnór Þór Gunnarsson og til hægri er íþróttastjóri Bergischer HC, Fabian Gutbrod. Mynd af vef félagsins.

Arnór Þór Gunnarsson og Markus Pütz hafa verið ráðnir aðalþjálfarar þýska handboltaliðsins Bergischer HC til næstu tveggja ára.

Þórsarinn Arnór Þór lék með félaginu um langt árabil en lagði skóna á hilluna fyrir sléttu ári og varð í kjölfarið aðstoðarþjálfari ásamt Pütz. Þeir voru síðan beðnir um að stýra liðinu í sameiningu út leiktíðina eftir að aðalþjálfaranum, Jamal Naji, var sagt upp störfum um miðjan apríl eftir afleitt gengi; Bergischer hafði þá tapað 12 leikjum í röð. 

Félagarnir slógu til og gjörbreyttu gangi mála en liðið féll þó naumlega úr efstu deild. Reyndar er ekki loku fyrir það skotið að HSV Hamburg verði gert að færa sig um set niður í næst efstu deild sakir fjárhagsvandræða og Bergischer yrði þá áfram í deild þeirra bestu. Þetta mun skýrast á allra næstu dögum.

Ótrúlegur árangur

„Gengi liðsins hafði verið mjög slakt þegar ég og Markus tókum við um miðjan apríl. Mórallinn var ekki góður og æfingakúltúruinn var því miður ekki góður,“ sagði Arnór Þór við Akureyri.net í dag.

„Við breyttum þessu. Maður fann strax fyrir því hvernig leikmennirnir tóku því sem við vildum gera og í síðustu sex leikjunum náðum við sjö stigum af 12 mögulegum, sem mér finnst ótrúlegt miðað við hvernig gengið var áður. Mér finnst líka ótrúlegt að við skulum hafa enn átt möguleika á að halda okkur í deildinni þegar kom fram á síðasta leikdag. Það sýnir að við gerðum eitthvað rétt með leikmannahópinn,“ segir Arnór Þór hæverskur.

Þeir Pütz gerðu tveggja ára samning sem fyrr segir. „Ég bjóst ekki við að vera orðinn aðalþjálfari einu ári eftir að ég hætti sem leikmaður en þetta tækifæri gafst, við vorum ánægðir með okkar vinnu og hvernig leikmannahópurinn tók okkur svo við slógum til,“ segir hann.

„Bergiscer er stór klúbbur í handboltanum í Þýskalandi. Þetta er því bæði stórt og flott tækifæri og ég hlakka mikið til að takast á við verkefnið. Við erum báðir virkilega spenntir fyrir framhaldinu hvort sem við verðum í efstu eða næst efstu deild.“