Fara í efni
Menning

Arnar og „Líf mitt í ljóðum“ í Davíðshúsi

Ljóðskáldið Davíð Stefánsson var fæddur 21. janúar árið 1895 í Fagraskógi við Eyjafjörð. Næsta þriðjudag eru því 130 ár síðan hann leit þennan heim fyrst. Í Davíðshúsi verður minning skáldsins heiðruð á þessum tímamótum, en um komandi helgi verður leikarinn Arnar Jónsson með ljóðalestur í húsinu. Arnar fer um víðan völl, en á dagskrá eru ljóð sem hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina og þar er Davíð Stefánsson í góðra skálda hópi. Blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn suður til Arnars.

  • Ljóðastundin með Arnari í Davíðshúsi er klukkan 17.00 laugardag og kl. 14.00 á sunnudag.

Arnar Jónsson er fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann fæddist og bjó fyrst í Möðruvallastræti en síðar byggði faðir hans, ásamt öðrum, nokkur hús við Byggðaveg og flutti fjölskyldan í hús númer 95. Faðir Arnars var Jón Kristinsson, rakari og síðar forstöðumaður öldrunarheimilanna og móðir hans hét Arnþrúður Ingimarsdóttir. Arnar á tvær systur, Helgu Elínborgu og fóstursysturina Arnþrúði.

Arnar Jónsson leikari: „Um tíma þótti ekkert fínt að hampa hans ljóðum um of, kallaður vinnukonuskáldið og allt það. En svo hafa menn áttað sig á því að það væri töluvert dýpra á meiningunni en það. Hann hefur alltaf verið mér nálægur. Eins og mörg önnur skáld.“

„Tenging mín við Davíð hefur verið margvísleg, í gegnum tíðina,“ segir Arnar Jónsson, leikari og ljóðaunnandi. „Fyrir það fyrsta, þá eigum við sama afmælisdag. Ég verð 82 ára næsta þriðjudag. Svo vil ég nefna, að það var fyrir algjöra tilviljun að ég var gestaleikari á Akureyri fyrir sléttum þrjátíu árum. Þá fékk ég að búa í listamannaíbúðinni í Davíðshúsi og það átti náttúrlega að halda upp á ártíð skáldsins, sem hefði orðið 100 ára það árið.“

Arnar var beðinn um að taka þátt í afmælishátíðinni, en einhver hafði heyrt sögu af því, að Arnar hefði hitt Davíð í persónu einhvern tímann, sem stóð heima. „Ég var sex ára þegar ég hitti hann,“ segir Arnar. „Þá hafði faðir minn, sem þekkti Davíð, farið með mig í göngutúr. Sjálfsagt fórum við fyrst upp að Andapolli og svo upp í sundlaug og þar sat þessi öldungur. Hann hallaði sér fram á stafinn sinn og horfði á sundfólkið.“ 

„Ég man þennan fund,“ segir Arnar. „En vegna þessa, var ég beðinn um að koma upp í stofurnar og hefja þessa miklu dagskrá, sem náði út um allan bæ og endaði í Möðruvallakirkju með mikilli ljóðadagskrá. Þar setti ég semsagt þessa hátíð og var með örlitla ljóðastund fyrir ættingjana og svona einhverjar silkihúfur úr bænum.“

Arnar Jónsson sem Óvinurinn, eða Skrattinn, í mjög umdeildri uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Gullna hliðinu í ársbyrjun 1970. Þórhalla Þorsteinsdóttir er Kerlingin og Jón Kristinsson, faðir Arnars, fór með hlutverk Jóns kotbónda. Mynd: Minjasafnið á Akureyri/Páll A. Pálsson

En frekar af tengingu Arnars við Davíð Stefánsson. „Ég lék Óvininn, eða Skrattann í mjög umdeildri uppfærslu á Gullna hliðinu,“ segir Arnar. „Ég lék hann svo aftur í Sjónvarpinu nokkru síðar. Ég og Helga systir mín lásum svo ljóðin hans inn á geisladisk fyrir margt löngu, sem var síðan notað í myndgerð fyrir sjónvarp. Egill Eðvarðsson átti veg og vanda að þessu, hann er reyndar Akureyringur og fæddur í Möðruvallastrætinu eins og ég. Ég er ekki frá því að þessi þáttur hafi verið sýndur aftur, fyrir ekki svo löngu síðan.“

„Ljóð hafa fylgt mér alla tíð,“ segir Arnar. „Ef ég hugsa um ljóð Davíðs sérstaklega, þá finnst mér ljóðin hafa snert mann, eins og allir hlutir, mjög misjafnlega á ólíkum tímum í lífinu. Um tíma þótti ekkert fínt að hampa hans ljóðum um of, kallaður vinnukonuskáldið og allt það. En svo hafa menn áttað sig á því að það væri töluvert dýpra á meiningunni en það. Hann hefur alltaf verið mér nálægur. Eins og mörg önnur skáld.“

„Um helgina verð ég með úrval úr ljóðaprógramminu 'Líf mitt í ljóðum', sem ég flutti fyrst í Landnámssetrinu í Borgarnesi,“ segir Arnar, um ljóðalestur helgarinnar í Davíðshúsi. „Það var alveg tveggja tíma dagskrá, en mér skilst að hægindin í Davíðshúsi bjóði ekki alveg upp á tveggja tíma setu, þannig að ég hef stytt þetta niður í rétt rúman klukkutíma. Þarna kemur Davíð Stefánsson vissulega við sögu.“

Leikhópur Alþýðuleikhússins leggur upp í leikför vorið 1976. Frá vinstri: Arnar Jónsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Ragnhildur Benediktsdóttir, María Árnadóttir, Kristín Ólafsdóttir og Þráinn Karlsson.

Þrátt fyrir að hafa búið fyrir sunnan meirihlutann af fullorðinsævi sinni, var Arnar um tíma fyrir norðan og hafði mikil áhrif á leiklistarlíf bæjarins. „Frá 1969 - 1977 bjuggum við á Akureyri,“ segir Arnar. „Ég og fleiri stofnuðum atvinnuleikhús á Akureyri 1973. Síðan stofnuðum við Alþýðuleikhúsið árið 1975, sem var ferðaleikhús. Faðir minn var líka áhugaleikari í áratugi, þannig að leikhúsið á Akureyri hefur alltaf verið mjög nálægt manni.“

Alþýðuleikhúsið stofnaði Arnar ásamt konu sinni, leikkonunni og leikstjóranum Þórhildi Þorleifsdóttur og öðru góðu fólki. Leikhúsið var framúrstefnulegt, ætlað fyrir sýningar með gagnrýnum undirtóni, sem vektu fólk til umhugsunar um þjóðfélagið. Ekki svo ólíkt stef og skáldin, mörg hver, færðu okkur í gegnum tíðina. Davíð Stefánsson var einn af þeim, sem gat beint sjónum fólks að þeim sem minna máttu sín, þeim sem unnu hörðum höndum á bak við tjöldin og stéttaskiptingu, svo fátt eitt sé nefnt.  

Áhugafólk um ljóð og líf Arnars Jónssonar ætti ekki að láta viðburði helgarinnar í Davíðshúsi framhjá sér fara. Einnig er vakin athygli á því að á fæðingardegi Davíðs Stefánssonar, þriðjudaginn 21. janúar, verður afmælisviðburður á sama stað, kl. 20-21, þar sem Sesselía Ólafsdóttir og Svavar Knútur minnast skáldsins í sögum og ljóðum.