Fara í efni
Menning

Árlegur markaður með bækur opnaður í dag

Fjölbreytni á bókamarkaðnum er mikil að vanda. Fáein dæmi: Dauðinn, bók Björns Þorlákssonar, Saga netagerðar á Íslandi, ævisaga Gunnars Birgissonar Saga vélstjórastéttarinnar, Uppgjör bankamanns ...

Bókaormar bæjarins eiga gott í vændum því árlegur markaður Félags íslenskra bókaútgefenda verður opnaður á Akureyri í dag kl. 10.00. Þar verður hægt að finna ilm af bókum, skoða og eignast bækur af öllum stærðum og gerðum þar til í lok mánaðarins.

Markaðurinn er að þessu sinni að Óseyri 18. „Rýmið er aðeins minna en oftast áður en fermetrarnir betur nýttir,“ sagði Kristján Karl Kristjánsson, starfsmaður félags útgefenda og umsjónarmaður markaðarins, þegar Akureyri.net leit við í gær. Þá var verið var að leggja lokahönd á undirbúning.

Fjöldi fólks leggur jafnan leið sína á markaðinn og fastagestir eru margir. Að sögn Kristjáns Karls eru um 4.000 titlar á boðstólum í ár og markaðurinn stendur lengur en áður, síðasti markaðsdagur er 28. september og opið verður alla daga vikunnar frá kl. 10.00 til 18.00.

HVAR ER ÓSEYRI 18?
Húsið er steinsnar frá smábátahöfninni í Sandgerðisbót, næsta hús við Blikkrás að Óseyri 16 þar sem Bátasmiðjan Vör var á sínum tíma. Fyrir margt löngu var Bátasmiðja Gunnlaugs og Trausta í húsinu Óseyri 18 en síðast var Malbikun Akureyrar þar til húsa. – Sjá kort af svæðinu neðst í fréttinni.

Kristján Karl Kristjánsson á bókamarkaðnum að Óseyri 18 í gær.