Fara í efni
Mannlíf

Árleg skötuveisla Hollvina Húna II

Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Árleg skötuveisla Hollvina Húna II var haldin í gær í mötuneyti Brekkuskóla. Þangað er jafnan boðið þeim fjölmörgu sem á einn eða annan hátt hafa stutt við starfið og gert félagsskapnum kleift að gera bátinn fallega út.

Fyrstu árin var skötuveislan haldin um borð í Húna en undanfarið hafa gestir verið svo margir að ekki var lengur pláss fyrir alla um borð og veislan því færð í skólann. Gestir í gær voru um 80, þeir snæddu vel kæsta skötu sem er verkuð af hollvinum sjálfum, enn fremur baka hollvinir rúgbrauð sem boðið er uppá ásamt góðan saltfisk með rófum, kartöflum, hömsum og síld.

Það var Júlíus Jónsson, matráður Brekkuskóla, sem sá um eldamennskuna eins og síðustu ár. Þorgeir Baldursson var á staðnum með myndavélina.

Gunnar St. Gíslason, til vinstri, formaður Hollvina Húna II, og Þorsteinn Pétursson, sem gegnt hafði formennsku frá upphafi.

Júlíus Jónsson, matráður Brekkuskóla, sá um eldamennskuna eins og síðustu ár.

Oddur Helgi Halldórsson færði Hollvinum Húna II peningagjöf.

Elvar Þór Antonsson og tvo af líkönum hans sem voru til sýnis í skötuveislunni; Húni II til hægri og Stellurnar; Svalbakur og Sléttbakur saman í einu líkani.