Fara í efni
Fréttir

Áramótabrennan á sama stað og í fyrra

Önnur áramótin í röð verður áramótabrenna Akureyringa á svæði nokkru sunnan við golfskálann að Jaðri. Kveikt verður í brennunni kl. 20:30 á gamlárskvöld. Myndin með fréttinni sýnir brennustæðið og nokkra staði þar sem íbúar geta lagt bifreiðum sínum, ásamt gönguleiðum að brennunni. Gönguleiðin frá bílastæðunum vestan Kjarnagötu að brennunni er um 800 metra löng, og um 700 metra löng frá bílastæðinu við golfskálann að Jaðri. 

Mögulegt verður fyrir gesti að leggja bifreiðum á eftirtöldum stöðum, eins og sýnt er á myndinni

  • Opið svæði vestan við Kjarnagötu í Hagahverfinu (stærsta svæðið)
  • Innst í Ljómatúni
  • Við golfskálann að Jaðri
  • Á litlu svæði vestan Jaðarstúns við veginn að golfskálanum
  • Við grenndarstöð hjá Bónus við Kjarnagötu

Súlur – björgunarsveitin á Akureyri sér um flugeldasýningu sem verður skammt frá höfuðstöðvum Norðurorku og hefst hún um kl. 21 á gamlárskvöld. Flugeldasýningin er í boði Norðurorku. 

Fólk er að sjálfsögðu hvatt til að fara varlega með skotelda um áramótin og muna að hirða upp flugeldarusl og koma í viðeigandi flokkun. Flugeldarusl má ekki fara í blandaðan heimilisúrgang. Sérstökum gámum fyrir flugeldarusl verður komið fyrir við verslanir Bónus í Naustahverfi og við Langholt og við grenndarstöðina norðan Ráðhússins.