Anna María Alfreðsdóttir (þriðja frá hægri) á verðlaunapalli ásamt íslenska kvennaliðinu sem vann til bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í liðakeppni með trissuboga. Mynd af archery.is.
Anna María Alfreðsdóttir vann til bronsverðlauna með sveit Íslands í liðakeppni með trissuboga á Evrópumeistaramótinu í bogfimi innanhúss sem fram fór í Samsun í Tyrklandi 17.-23. febrúar. Sex keppendur frá Akri á Akureyri tóku þátt í mótinu.
Keppt er í þriggja manna liðum og var íslenska sveitin ekki langt frá því að komast í úrslitaleikinn um gullið. Ísland mætti gestgjöfunum, Tyrkjum, í undanúrslitum og tapaði naumlega 227-233. Tyrkir fóru í úrslitaleikinn, en töpuðu þar fyrir Ítölum. Ísland vann bronsverðlaunin.
Anna María náði einnig ágætum árangri í einstaklingskeppninni. Hún vann liðsfélaga sinn úr íslenska liðinu í 32ja manna úrslitum, en féll úr leik eftir tap í 16 manna úrslitunum. Anna María átti þar góðan leik, en við ramman reip að draga þegar andstæðingurinn, hin ítalska Giulia Di Nardo, er einu stigi frá því að ná fullkomnu skori. Sú ítalska vann 149-143.

Anna María Alfreðsdóttir spennir bogann. Mynd af archery.is.
Aðrir keppendur frá Akri náðu einnig ágætum árangri.
- Benedikt Máni Tryggvason endaði í 6. sæti með liði Íslands í liðakeppni með trissuboga þar sem liðið lá fyrir Dönum í átta liða úrslium. Þá komst Benedikt Máni í 32ja manna úrslit í meistaraflokki í einstaklingskeppni og endaði í 17. sæti. Hann var að keppa á sínu fyrsta alþjóðlega móti í bogfimi.

Benedikt Máni Tryggvason til vinstri á sínu fyrsta alþjóðlega móti í bogfimi. Mynd af archery.is.
- Alfreð Birgisson og íslenska karlaliðið endaði í 6. sæti í liðakeppni karla með trissuboga þar sem liðið tapaði fyrir Dönum í átta liða úrslitum, en Danir eru margfaldir heimsmeistarar í íþróttinni.
- Í einstaklingskeppni með trissuboga endaði Alfreð í 17. sæti eftir að hann féll út í 32ja manna úrslitum eftir tap á móti Dananum Martin Damsbo, sem var einu stigi frá fullkomnum leik. Lokatölur urðu 140-149.

Alfreð Birgisson í keppni með trissuboga. Mynd af archery.is.
- Izaar Arnar Þorsteinsson endaði í 7. sæti með íslenska liðinu í liðakeppni karla með berboga. Íslenska liðið tapaði 0-6 fyrir Ítölum og endaði í 7. sætinu. Ítalir eru langsterkasta þjóðin í karlaflokki í keppni með berboga.
- Í 32ja manna úrslitum í einstaklingskeppni með berboga tapaði Izaar Arnar fyrir Litháanum Ernestas Vilkaukas og endaði í 17. sæti. Hann komst í 16 manna úrslit á EM 2024.

Izaar Arnar Þorsteinsson í leik á EM. Mynd af archery.is.
- Georg Elvarsson frá Íþróttafélaginu Akri endaði í 17. sæti í keppni með sveigboga í meistaraflokki karla. Hann tapaði í 32ja manna úrslitum fyrir Andrei Belici frá Moldóvu.
- Georg endaði í 18. sæti í undankeppni EM, náði 399 stigum.

Georg Elvarsson var að keppa á sínu öðru Evrópumóti. Mynd af archery.is.
- Ari Emin Björk komst í 32ja manna úrslit í keppni í flokki U21 með sveigboga. Hann endaði í 26. sæti í undankeppni EM með 529 í skor. Hann mátti játa sig sigraðan á móti Nectarious Condurache frá Rúmeníu. Ari átti frábæra umferð í leiknum, fullkomið skor, 10-10-10, en það var ekki nóg og úrslitin 2-6. Ari endaði því í 17. sæti.

Ari Emin Björk var að keppa í annað skipti á EM. Mynd af archery.is.