Fara í efni
Íþróttir

Andri aðstoðarþjálfari og Jóhann semur áfram

Jóhann Geir Sævarsson og Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA. Mynd af vef KA.

Jóhann Geir Sævarsson skrifaði nýlega undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er því samningsbundinn félaginu til vors 2026.

Jóhann Geir er 25 ára gamall vinstri hornamaður sem er uppalinn hjá KA og hefur hann leikið með meistaraflokksliði félagsins undanfarin fjögur tímabil, segir á vef KA. Þar segir að hann eigi að baki 93 leiki í deild, bikarkeppni og Evrópukeppni.

Sævar Árnason, faðir Jóhanns Geirs, lék einnig í vinstra horninu á sínum tíma. Hann lék með KA 1996 til 2006 og vann alla titla sem í boði voru.

Þá hefur Andri Snær Stefánsson verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla á næsta handboltavetri og kemur þar með inn í teymið hjá Halldóri Stefáni Haraldssyni aðalþjálfara liðsins. 

Á vef KA segir:

Andra Snæ þarf vart að kynna fyrir KA fólki en hann er uppalinn hjá félaginu og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með KA tímabilið 2003-2004. Með KA lék Andri Snær 166 leiki í deild, bikar og Evrópu og var hann fyrirliði liðsins til fjölda ára.

Andri er auk þess leikjahæsti leikmaður sameiginlegs liðs Akureyrar þar sem hann lék 222 leiki en liðið var starfrækt á árunum 2006 til 2017. Þá lék hann einnig með danska liðinu Odder árin 2010 og 2011.

Andri byrjaði snemma í þjálfun yngriflokka hjá KA og tók svo við stjórn ungmennaliðs KA á árunum 2017-2020 þar sem liðið vann sigur í 2. deildinni veturinn 2018-2019 og festi sig í sessi í Grill66 deildinni tímabilið eftir.