Fara í efni
Íþróttir

„Andlegur styrkur og sjálfstraust vex í BJJ“

Rut Pétursdóttir, annar eigenda Atlantic BJJ, er með svarta beltið í brasilísku Jiu Jitsu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Rut Pétursdóttir byrjaði að æfa bardagaíþróttina brasilískt Jiu Jitsu (BJJ) þegar hún var 27 ára, en hún fékk gjafabréf á grunnnámskeið frá manninum sínum í afmælisgjöf.  Í dag, rúmlega 10 árum síðar er hún að reka sína eigin BJJ stöð með fjöldan allan af iðkendum og með svart belti um sig miðja. Þegar blaðamaður spyr, hvort að hún hefði getað séð þetta fyrir sér, þegar hún mætti fyrst á æfingu, hristir hún hausinn og segir það af og frá.

„Ég ætlaði nú fyrst bara að þóknast manninum og nýta afmælisgjöfina frá honum. Mér þótti gaman að æfa og fyrst átti þetta bara að vera áhugamál, ég hef alltaf verið íþróttamanneskja og þurft að fá útrás og hreyfa mig. Ég fann strax hvað ég var að styrkjast á svo mörgum sviðum, þannig að áhuginn þróaðist fljótt yfir í lífsstíl. Ætli það sé ekki ástríða og einhver þrautsegja sem kom okkur á þennan stað.“ Í janúar var stór stund á íþróttaferli Rutar, þegar hún fékk svarta beltið í BJJ, fyrst norðlenskra kvenna.

Þetta er seinni hluti viðtalsins við Rut Pétursdóttur.

Í GÆRFYRST NORÐANKVENNA MEÐ SVART BELTI Í BJJ

 

Rut fékk svarta beltið í janúar síðastliðnum. Hún er fimmta konan á Íslandi að ná þeim áfanga, og fyrst norðlenskra kvenna. Myndir: aðsendar

Svarta beltið alls ekki lokaáfangi, heldur nýtt upphaf

„Það var mjög óvænt, að fá svarta beltið,“ segir Rut, en hún taldi sig einfaldlega vera að mæta á almenna æfingu, daginn sem beltið var afhent. „Við vorum með gestakennara frá Möltu í heimsókn, tvíburabræður sem eru báðir með svart belti og reka stærsta klúbb á Miðjarðarhafinu. Ég hélt að þeir ætluðu bara að hafa rosa fína æfingu þar sem ég ætlaði að taka þátt, þeir voru búnir að æfa hjá okkur vikuna á undan. Svo var búið að plana þetta á bak við tjöldin og ég held að ég hafi aldrei verið jafn hissa á neinu.“ Rut segir að það hafi tekið sig allan janúarmánuð að melta þetta. „Ég er mjög ánægð, glöð og þakklát. Ég set alltaf svo mikla pressu á sjálfa mig og ég efaðist alveg um það, hvort ég væri í alvörunni komin svona langt, en þetta er náttúrulega einstaklingsvegferð. Samkvæmt þessu fólki, er ég komin þangað, og þá hlýt ég bara að vera það og ég er að læra að trúa því.“

Íþróttin hefur byggt mig upp andlega. Ég er sterkari manneskja í dag á allan hátt

„Svarta beltið er í raun lokabeltið í þessari íþrótt, en upplifunin er samt þannig að ég sé bara rétt að byrja,“ segir Rut. „Þú tekur ekki bara einhver ákveðin beltapróf og kannt þá bara allt þegar svarta er komið í hús. Þetta er gríðarstórt púsluspil og þú ert að læra allan ferilinn. Íþróttin sjálf er í stöðugri þróun og þú getur endalaust bætt við þig. Svo er reyndar hægt að safna 'strípum' á beltið þitt, þannig að það er hægt að fá ákveðnar gráður af svarta beltinu.

 

Rut og Tómas ræða við iðkendur eftir æfingu í unglingaflokki. Mynd: RH

Ekki öll sem velja að keppa í íþróttinni

Á Íslandi er keppt í BJJ, en það er algjörlega valfrjálst hvort fólki langi að taka þátt í keppnum eða ekki. „Ég hef persónulega ekki keppt oft,“ segir Rut. „Ég á ekki gríðarlegan keppnisferil að baki, ég er frekar manneskja sem gerði íþróttina að mínum lífsstíl. Opnaði klúbb og vil gefa af mér og kenna öðrum, æfa mikið sjálf og vaxa og dafna sem persóna. Ég er til dæmis ekki búin að fá svarta beltið vegna keppnisafreka, mínir styrkleikar eru annarsstaðar.“

Þau sem æfa bardagaíþróttir eru í raun fólkið sem er ólíklegast til þess að beita glímubrögðum nema í algjörri neyð í daglegu lífi

Fólk spyr sig oft, þau sem ekki þekkja íþróttina eða aðrar sambærilegar, hvort að það sé eitthvað vit í því að láta barnið sitt æfa sig í því að slást. Rut getur svarað þessu. „Bardagaíþróttir eru ekki slagsmál,“ segir hún strax. „Hvort sem það er BBJ, júdó, box eða hvað, snýst það fyrst og fremst um tækni og vörn. Þetta kennir gríðarlega mikla sjálfsvörn fyrir einstaklinginn. BJJ er til dæmis talin ein besta sjálfsvarnaríþrótt í heimi. Það snýst allt um skaðaminnkun. Draga úr skaða fyrir þig og andstæðinginn. Það eru engin högg eða spörk leyfð. Takmarkið er að yfirbuga andstæðinginn og halda honum föstum með fastataki eða hengingu.“ Í Bandaríkjunum, sumstaðar, er BJJ kennt í lögreglunni til þess að reyna að tryggja skaðaminnkun í handtökum til dæmis. Einnig hefur Rut stundum boðið upp á sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur í Atlantic, sem hafa verið vel sótt.

 

Rut og Tómas glíma oft við hvort annað og segja það gott fyrir sambandið. Mynd: RH

Bardagaíþróttir styrkja á ýmsum sviðum

Rut segir að iðkendur undir 12 ára aldri séu ekki að læra lása og hengingar, en þjálfunin er aðlöguð að hverjum aldurshópi og styrkleika fyrir sig. „Hjá þeim yngstu, kennum við sjálfsvörn og yfirbugun, allt í formi leikja,“ segir Rut. „Þetta verður líka til þess, að þau sem stríða og eru ógnandi annarsstaðar, þau læra og þroskast frá þeirri hegðun hjá okkur. Allir styrkjast á einhverju sviði. Andlega hliðin á íþróttinni, hvort sem þú ert fullorðinn eða barn, er sú að þú lærir að þú kemur á æfingu og ert sett/ur í erfiðar aðstæður alla æfinguna. Þú þarft að anda þig í gegnum þetta og koma þér í gegnum aðstæður með tækni. Þú yfirfærir þessa seiglu ómeðvitað á annað í lífinu. Erfið tímabil geta gengið yfir, en þú hugsar að þetta sé bara enn ein glíman. Hvernig ætla ég að takast á við þetta? Andlegur styrkur og sjálfstraust vaxa með þér í þessari iðkun, líka hjá börnum.“

„Íþróttin hefur byggt mig upp andlega. Ég er sterkari manneskja í dag á allan hátt,“ segir Rut. „Sjálfstraustið og sjálfsöryggið hefur líka vaxið gríðarlega. Svo vil ég bæta við, varðandi líkamlega þáttinn, að þau sem æfa bardagaíþróttir eru í raun fólkið sem er ólíklegast til þess að beita glímubrögðum nema í algjörri neyð í daglegu lífi. Við berum virðingu fyrir íþróttinni og glíman á heima á mottunni,“ segir Rut Pétursdóttir að lokum. 

Facebook síða Atlantic BJJ

Heimasíða Atlantic BJJ

Gleði og vinátta skín í gegn í glímubrögðum iðkenda Atlantic. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir