Andlát: Þór Sigurðsson
Þór Sigurðsson, offsetljósmyndari, söngvari, hestamaður og fyrrverandi starfsmaður Minjasafnsins á Akureyri, er látinn.
Þór fæddist á Akureyri 9. júní árið 1949 og lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri síðastliðinn þriðjudag, 21. maí, eftir nokkurra ára baráttu við krabbamein.
Foreldrar Þórs voru Sigurður O. Björnsson prentsmiðjustjóri á Akureyri og Kristín Bjarnadóttir húsmóðir.
Eiginkona Þórs var Herdís Stefánsdóttir frá Sauðárkróki, hún lést árið 1999.
Börn Þórs og Herdísar eru, 1) Stefán Þórsson f. 16. október 1974, synir hans eru Daníel Semjonov Stefánsson f. 2006 og Gabriel Þór Stefánsson f. 2011. Þeir eru allir búsettir Árósum í Danmörku. 2) Sigurður Þórsson f. 27. nóvember 1978, búsettur á Akureyri. 3) Þórdís Þórsdóttir f. 14. september 1989, búsett á Akureyri.
Systkin Þórs eru Geir S. Björnsson f. 1924 d.1993, Bjarni Sigurðsson f. 1934 d.1996, Sólveig Sigurðardóttir f. 1936. d.1991, Ingibjörg Sigurðardóttir f. 1940, Ragnar Sigurðsson f. 1942 og Oddur Sigurðsson f. 1945.
Þór var menntaður offsetljósmyndari og filmugerðarmaður og starfaði á sínum tíma í fyrirtæki föður síns, Prentverki Odds Björnssonar á Akureyri. Síðar vann Þór lengi á Minjasafninu á Akureyri. Hann var þekktur hestamaður, einn stofnenda og fyrsti formaður hestamannafélagsins Fjölnis á Akureyri, sem síðar sameinaðist hestamannafélagsinu Létti. Þá varð Þór varaformaður Léttis. Þór var einnig mjög góður söngvari, kunnur fyrir mikla, djúpa bassarödd. Hann söng með flestum kórum á Akureyri í gegnum tíðina, gjarnan einsöng.