Fara í efni
Fréttir

Amaro skiltið upp fyrir Akureyrarvöku

Amoro skiltið er tilbúið til að fara upp á sinn fyrri stað, nýsprautað og með ledlýsingu. Það er geymt fyrir utan Geimstofuna sem sá um verkefnið.

Amaro skiltið, sem er eitt elsta ljósaskilti landsins, og prýddi Amarohúsið í Hafnarstræti í áratugi hefur fengið andlitslyftingu. Skiltið var tekið niður fyrir þremur árum síðan en nú er stefnt að því að það verði aftur komið á sinn stað síðar í sumar.

Veitti ekki af endurnýjun

Eins og Akureyri.net greindi frá þá brá mörgum bæjarbúum í brún þegar skiltið var tekið niður á sínum tíma, enda skiltið löngu orðið eitt af kennileitum bæjarins. Skiltið var hins vegar orðið tuskulegt þegar það var tekið niður og veitti því ekki af yfirhalningu.

Upp fyrir Akureyrarvöku

Nú er bæði búið að hressa upp á litinn á skiltinu og það komið með ledlýsingu. Að sögn Þórhalls Jónssonar, fyrrverandi kaupmanns, er stefnt að því að skiltið verði komið upp fyrir Akureyrarvöku og verði jafnvel vígt með viðhöfn, enda bera margir Akureyringar hlýjar tilfinningar til þess. Akureyrarvaka verður 30. ágúst til 1. september.

AMARO-skiltið tekið niður að morgni 19. ágúst árið 2021. Ljósmynd: Tryggvi Gunnarsson.