Fara í efni
Íþróttir

Alþjóðlegi júdódagurinn haldinn hátíðlegur

Afmælisdegi Jigoro Kano, upphafsmanns júdósins, er alltaf fagnað með ákveðnu þema á alþjóðlega júdódaginn. Afmælisdagurinn var þann 28. október en var fagnað hjá júdódeild KA í dag þar sem aðalþjálfarinn var á námskeiði í Ungverjalandi, hjá alþjóða júdósambandinu á sjálfan afmælisdaginn.

Júdódeild KA fagnaði alþjóðlega júdódeginum í dag með skemmtilegum viðburði í júdósal KA. Alþjóðlegi júdódagurinn er haldinn árlega til að heiðra afmælisdag Jigoro Kano, upphafsmann júdósins.

Viðburðurinn hefur alltaf ákveðið þema og þema ársins í ár var „Vellíðan“. Vellíðan er flókið samspil andlegrar, líkamlegrar, tilfinningalegrar og félagslegrar heilsu og er sterklega tengd við hamingju og lífsfyllingu. Júdódeild KA leggur mikla áherslu á vellíðan frá upphafi æfinga, þar sem hún er undirstaðan í að byggja upp heilbrigða afstöðu sem íþróttafólk og sem grunn að lífinu almennt.

Uppgangur í júdóinu

Á viðburðinum sýndu iðkendur og aðalþjálfari júdódeildarinnar, Eirini Fytrou, helstu brögð júdóíþróttarinnar og fengu gestir einnig að spreyta sig. Að sýningu lokinni var boðið upp á hollar heimagerðar kræsingar. Eins og Akureyri.net hefur áður sagt frá er júdódeildin í uppgangi eftir nokkurra ára lægð en deildin fékk nýjan þjálfara í haust og hefur fjölgað í æfingahópnum. 

Júdóiðkendur og gestir á alþjóðlega júdódeginum. Nokkrir iðkendur koma alla leið frá Siglufirði og Húsavík á æfingar hjá júdódeildinni. 

Júdó lítur stundum út eins og samkvæmisdans. Hér stígur Eirini aðalþjálfari sporið með nemanda.