Fara í efni
Fréttir

„Akureyringur“ flýtti sér í heiminn syðra!

Skjáskot úr fréttum RÚV

Ingibjörg Hulda Watkins og Dafydd Watkins, sem búsett eru á Akureyri, eignuðust fyrsta barn ársins hér á landi, dreng sem vó 15 merkur og fæddist rétt fyrir klukkan 2 á nýársnótt Landspítalanum í Reykjavík.

Drengurinn flýtti sér í heiminn til að hitta ömmu sína og afa sem búa erlendis og fara heim á morgun, eins og það var orðað í skemmtilegri frásögn í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld.

Ingibjörg Hulda og Dafydd ákváðu að verja áramótunum í Reykjavík, „alls ómeðvituð um að þau kæmu með barnið í fanginu aftur heim enda Ingibjörg bara gengin um 38 vikur,“ segir þar.

„Okkur var boðið að koma hingað til foreldra minna af því að foreldrar hans búa í Wales og ætluðu að koma yfir áramótin,“ segir Ingibjörg Hulda. Foreldrar Dafydds ætluðu að vera á landinu í fjóra daga og fara heim til Wales á morgun. „En hann hefur ákveðið að hitta ömmu sína og afa áður en þau færu,“ segir hún.

Frétt RÚV: Að flýta sér í heiminn áður en afi og amma færu heim til Wales