Akureyringarnir hafa lokið keppni á HM
Rannveig Oddsdóttir varð í 57. sæti af 130 keppendum í kvennaflokki og Þorbergur Ingi Jónsson varð 89. af 160 körlum sem hófu keppni í 87 km hlaupi á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Austurríki í gær, föstudag. Daginn áður kepptu sex Íslendingar, þar af fjórir sem búsettir eru á Akureyri, í 45 km hlaupi.
Fjórir Íslendingar kepptu í gær í 87 km hlaupinu. Snorri Björnsson náði besta tímanum, kom 33. í mark eftir að hafa hlaupið í 11 klukkustundir, 8 mínútur og 17 sekúndur. „Snorri útfærði hlaupið frábærlega og vann sig frá 118. sæti eftir 17,5 km upp í 33. sæti,“ segir á vef Frjálsíþróttasambands Íslands.
Halldóra Huld Ingvarsdóttir varð í 43. sæti í gær á 13 klst., 41 mín. og 49 sek. en Rannveig hljóp vegalengdina á 14 klst., 18 mín. og 10 sek. Þorbergur Ingi fór þessa 87 km. á 12 klst., 58 mín. og 32 sek.
Frétt Akureyri.net um keppnina í gær: Akureyringarnir komu allir sælir í mark