Akureyrarbær semur við Skákfélag Akureyrar
Akureyrarbær hefur gengið frá samstarfssamningi við Skákfélag Akureyrar sem hefur það að meginmarkmiði að styðja við starf barna og ungmenna og gefa þeim kost á heilbrigðu og metnaðarfullu félags- og æskulýðsstarfi.
Samkvæmt samningnum er Skákfélaginu ætlað að bjóða upp á barna- og unglingastarf á Akureyri. Félagið sinnir einnig skákkennslu í samstarfi við grunnskóla bæjarins og samkvæmt nánara samkomulagi við hvern skóla fyrir sig.
Samningurinn nær til þriggja ára, 2024-2026 og leggur bærinn skákfélaginu til 500 þúsund krónur fyrir hvert ár. Félagið nýtur einnig styrks frá Akureyrarbæ í formi húsaleigu og félagssaðstöðu í kennslustofu í vesturhluta Íþróttahallarinnar.
Nánar er sagt frá samningnum í frétt á vef Akureyrarbæjar. Lesa má um starfsemi og fréttir af skáklífi bæjarins á bloggsíðu Skákfélagsins. Skákfélag Akureyrar var stofnað 1919 og er á meðal elstu félaga bæjarins.