Akureyrarbær hættir að styðja Flugklasann
Akureyrarbær hefur ákveðið að hætta beinum stuðningi við Flugklasann Air 66N, samstarfsverkefni ýmissa aðila um markaðssetningu og kynningu á Akureyrarflugvelli sem áfangastað fyrir millilandaflug allt árið.
Bærinn hefur stutt verkefnið frá upphafi, árið 2011, en í bókun bæjarráðs Akureyrar frá því í morgun kemur fram að ráðið telji farsælla að til komi sameiginlegur stuðningur sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu við Markaðsstofu Norðurlands. Flugklasinn hefur alla tíð verið í umsjá Markaðsstofunnar.
Óskuðu eftir 10 milljónum á ári
Flugklasinn óskaði eftir 500 króna framlagi á ári fyrir hvern íbúa bæjarins næstu þrjú ár, 2024 til 2026. Íbúar Akureyrar eru 20.000 þannig að um er að ræða 10 milljónir króna á ári.
Fjórir bæjarráðsmenn samþykktu bókunina en Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu, þykir miður að sveitarfélagið ætli að hætta stuðningi við verkefnið og lagði fram sérstaka bókun.
Fjórir bæjarráðsmenn samþykktu eftirfarandi bókun:
„Bæjarráð ákvað á fundi sínum 27. október 2022 að gera sólarlagssamning við Flugklasann um árin 2022 og 2023. Bæjarráð ítrekar þá bókun sem tekin var á þeim fundi þar sem sagði að Akureyrarbær hefur verið dyggur stuðningsaðili Air 66N verkefnisins frá upphafi. Markmið flugklasans hefur verið að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið um kring. Töluverður árangur hefur náðst í því átaki, en ljóst að áfram þarf að sinna því verkefni. Bæjarráð telur farsælla að stuðningur verði í gegnum sameiginlegan stuðning sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu við Markaðsstofu Norðurlands.“
Hilda Jana Gísladóttir lét bóka eftirfarandi:
„Það er miður að Akureyrarbær ætli að hætta stuðningi sínum við Flugklasann Air 66N. Akureyrarbær ætti að leggja metnað í að byggja ofan á þann árangur sem hefur náðst, ekki síst þar sem enn eru mikil tækifæri til þess að byggja Norðurland upp sem heilsárs áfangastað fyrir millilandaflug.“
_ _ _
HVAÐ ER FLUGKLASINN AIR 66N?
- „Flugklasinn Air 66N er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila í samfélaginu,“ segir á vef Markaðsstofu Norðurlands.
Þar segir ennfremur:
- „Klasinn er leiðandi í að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem nýjan áfangastað fyrir millilandaflug allt árið um kring með það að markmiði að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra á svæðinu. Verkefnið fór af stað 2010 og í október það ár var ráðinn verkefnastjóri til að annast undirbúning að verkefninu í samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila. Í október 2011 var klasinn svo formlega stofnaður. Verkefnið hefur frá upphafi verið hýst hjá Markaðsstofu Norðurlands (MN).“