Ak Extreme verður ekki að þessu sinni
Snjóbretta og tónlistarhátíðin Ak Extreme verður ekki haldin í ár. Aðstandendur tilkynntu þetta í dag en hátíðin átti að fara fram 31. mars og apríl.
„Óvæntar aðstæður og breyttar forsendur á lokastigum skipulagningar hafa orðið til þess að ekki verður unnt að halda Ak Extreme 2023 eins og áætlað var,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu hátíðarinnar.
„Okkur þykir það mjög miður, ekki síst vegna þeirra vina okkar, fjárfesta, listafólks og gesta sem voru farin að hlakka til að upplifa og njóta og láta hlutina gerast.“
Hátíðin hefur notið mikilla vinsælda en þar hafa bestu snjóbrettamenn landsins sýnt listir sínar, vélsleðamenn stundum haldið „flugsýningu“ og vinsælir tónlistarmenn troðið upp í bænum.
„Við erum komin á fullt í skipulagningu og hugmyndasöfnun fyrir eitthvað æðislegt á næsta ári. Og hver veit nema það verði fyrr. Þangað til: Ást og friður!“ segir í tilkynningu frá eigendum og skipuleggjendum hátíðarinnar.