Áhugaverð mynd af sálfræðilegu samspili
Íbúar í Innbænum eru almennt andvígir framlögðum skipulagsbreytingum á grænu svæði við Hafnarstræti en aðrir íbúar á Akureyri eru fremur hlynntir þeim. Þetta er niðurstaða könnunar sem fyrirtækið Envalys gerði.
Svæðið sem um ræðir er Leiruvöllur, leiksvæði gegnt Laxdalshúsi, en skipulagsbreytingin er gerð vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við búsetukjarna á næstu lóð norðan við.
Alls tóku 196 manns þátt í könnuninni sem er áhugavert fyrir skipulagsverkefni af þessari stærðargráðu, að sögn Páls Jakobs Líndal, doktors í umhverfissálfræði og eiganda ráðgjafafyrirtækisins Envalys. Hann nefnir sem dæmi að um 230 manns þátt í könnun sem fyrirtækið gerði um skipulagsbreytingu á Oddeyrinni á sínum tíma þegar til stóð að reisa háhýsi á Gránufélagsreitnum.
Nærumhverfi skiptir máli
„Það sem er áhugavert í þessari könnun er munur í afstöðu þeirra sem búa í Innbænum og þeirra sem búa í öðrum hverfum á Akureyri. Slíkt er auðvitað eðlilegt því nærumhverfi okkar skiptir okkur oft meira máli en það sem er fjær okkur. Þess vegna ættu skipulagsyfirvöld á Akureyri að leggja við hlustir og taka alvöru samtal við íbúa í Innbænum um þetta svæði og fyrirhugaða uppbyggingu,“ segir Páll Jakob.
„Þegar leitað er skýringa á þessari andstöðu þá má t.d. sjá að íbúar í Innbænum bindast svæðinu sterkari tilfinningalegum böndum. Með öðrum orðum eru staðarvensl íbúa í Innbænum við svæðið sterkari í samanburði við íbúa í öðrum hverfum á Akureyri. Bara þessar niðurstöður ættu að fá skipulagsyfirvöld til að staldra aðeins við, því staðarvensl geta rist mjög djúpt hjá fólki og það er mjög mikilvægt að þau séu tekin alvarlega.“
Áhugaverð mynd
„Aðrar skýringar á andstöðu íbúa í Innbænum eru þær að þeir telja svæðið veita sér frelsi og auka vellíðan sína. Dvöl á svæðinu er því góð fyrir íbúa en það sem er athyglisvert hérna er að bara það að vita af svæðinu veitir frelsi og aukna vellíðan. Þannig að þau rök að svæðið sé lítið notað, þarna sé aldrei neinn, þau standa veikari fótum. Og þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður sálfræðilegra rannsókna um það hversu áhrifaríkar hugsanir okkar geta verið fyrir líðan okkar og velferð,“ segir Páll Jakob.
Hann segir könnun þessa gefa áhugaverða mynd af sálfræðilegu samspili íbúa og Leiruvallar.
„Ég held að könnun á borð við þessa sé algjört einsdæmi sé horft til umfangs þess viðfangsefnis sem skipulagsbreytingarnar taka til og ég tel að svona nálgun ætti að vera miklu oftar nýtt þegar kemur að verkefnum á boð við þetta. Svona upplýsingar hjálpa okkur að skilja hvert annað og brúa bilið milli ólíkra hagsmuna hópa. Það er svo mikilvægt að skilja drifkraftana sem þarna liggja að baki. Þessi könnun er þá allavegana eitt skref í þá átt.“
Gráupplagt tækifæri
Páll Jakob bendir á, eins og áður var nefnt, að nærumhverfi skipti fólk máli og eins og í þessu tilviki, þá skipti það íbúa í Innbænum máli að hafa möguleika á því að heimsækja þetta litla græna svæði, þó þeir jafnvel geri það aldrei. En bara það að hafa möguleikann getur veitt tilfinningu um aukið frelsi, segir hann.
„Þar fyrir utan hefur fólk hugmyndir um þróun svæðisins, þannig að hérna er gráupplagt tækifæri fyrir Akureyrarbæ, með þessar upplýsingar í höndunum að stofna til samtals við íbúa í því skyni að lenda málinu með farsælum hætti. Það er svo mikilvægt að taka samtalið við fólk og leyfa því að finna að það hafi rödd og viðhorf þess skipti máli.“