Fara í efni
Fréttir

Aftur meira en 50 þúsund gestir á mánuði

Í nýliðnum október voru gestir Akureyri.net 52.289 – og er þá hver og einn (hver IP tala) aðeins talinn einu sinni. Langflestir fara margoft inn á síðuna í hverjum mánuði, margir oft á hverjum einasta degi. Fjöldi gesta var í fyrsta skipti yfir 50.000 í september og afar ánægjulegt að ná því nú annan mánuðinn í röð. Í september voru gestir 53.255 og hafa aldrei verið fleiri.

Eftir fáeina daga eru tvö ár síðan vefurinn var endurvakinn af undirrituðum og óhætt að segja að viðtökur hafi verið frábærar. TAKK!

  • Fólki og fyrirtækjum gefst kostur á að styðja við reksturinn með mánaðarlegu framlagi. Aðgangur að margvíslegu efni á netinu er án endurgjalds en ekkert verður hins vegar til ókeypis, Akureyri.net er fjármagnað með auglýsingum og styrkjum og það er von mín að sem flestir sjái sér fært að taka einhvern þátt í ævintýrinu. Allt skiptir máli. Með því að smella hér er hægt að skrá sig.

Hér eru nokkrar staðreyndir um velgengnina:

  • Heimsóknir á vefinn í október voru að meðaltali 6.215 á dag.
  • „Einstakir gestir“ í september voru 52.289 sem fyrr segir. Þá er hver IP tala (hver sími og tölva) sem fer inn á miðilinn einhvern tíma í mánuðinum aðeins talin einu sinni.
  • Íbúar Akureyrar eru um 19.000 þannig að þessar ótrúlegu tölur sýna svo ekki verður um villst að vefurinn er gríðarlega mikið lesinn af fólki sem búsett er annars staðar. Það er raunar í samræmi við viðbrögð sem undirritaður fær reglulega, bæði annars staðar af landinu og erlendis frá.
  • Flettingar í október voru alls rúmlega 1,1 milljón – síðunni var flett í 1.135.496 skipti.
  • Lestur vefsins hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi.
  • Í ágúst voru „einstakir gestir“ Akureyri.net 39.915, sem var það mesta fram að því, en fjölgaði sem sagt um 13.340 í september!
  • „Einstakir gestir“ í janúar á þessu ári voru 28.419 og hefur þeim því fjölgað um tæplega 25.000 á níu mánuðum.
  • Fyrstu sex daga þessa mánaðar voru „einstakir gestir“ Akureyri.net  20.482 sem er mun meira en nokkur sinni. Svo gæti því farið að metið frá því í september yrði rækilega slegið nú í nóvember.

Þegar ferðalagið hófst, föstudaginn 13. nóvember árið 2020, var það að sjálfsögðu óvissuferð. Eftir 40 ára í blaðamennsku grunaði mig þó að fjölbreyttur og vandaður staðarmiðill ætti sér tilverurétt á Akureyri. Var því hvergi smeykur og reyndist sannspár.

Hvers kyns umfjöllun um nærumhverfi skiptir fólk eðlilega miklu máli og staðarmiðlar eru því afar mikilvægir. Þeir hafa tækifæri til að fjalla um fjölmargt sem landsmiðlar geta ekki sinnt.

Nýtt efni birtist að sjálfsögðu á hverjum einasta degi ársins og fátt er Akureyri.net óviðkomandi; sagðar eru fréttir af ýmsu tagi, fjallað um íþróttir, menningu og listir, fjölbreytt mannlíf, og birtir eru margvíslegir pistlar reglulega, Akureyri.net birtir aðsendar greinar um hvaðeina og minningargreinar á útfarardegi. Þá skipa ljósmyndir stóran sess á vefnum.

Að meðaltali birtust 7,7 greinar á dag á Akureyri.net frá 13. nóvember 2020 til 5. nóvember 2022.

Það er engar ýkjur að undirritaður er afar þakklátur; hrærður, ekki síður en séra Bolli í Laufási kvaðst þegar hann þakkaði kvenfélagskonum fyrir afmælisgjöfina um árið – teskeiðasettið! Sagan sú er altjent góð og ekki ástæða til að draga hana í efa.

Takk enn og aftur fyrir stórkostlegar viðtökur!

Áfram Akureyri og Akureyringar hvar sem þeir eru niðurkomnir.

Áfram Akureyri.net!

Skapti Hallgrímsson
ritstjóri

„Akureyri.net er opinn gluggi heim!“

Frétt um lestur og flettingar í september