Fara í efni
Mannlíf

Aftur fá unglingar norðanlands Fiðring

Nemendur Lundarskóla fagna sigri í Fiðringi á síðasta ári. Ljósmynd: Sindri Swan

Fiðringur, hæfileikakeppni grunnskóla á Akureyri og í nærsveitum, verður haldin öðru sinni í þessum mánuði.

Í fyrra tóku þátt átta grunnskólar í hæfileikakeppninni, sem er að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi, en nú hefur tognað töluvert úr honum, eins og María Pálsdóttir, verkefnastjóri Fiðrings, orðar það.

„Í ár eru það 12 skólar frá Fjallabyggð til Húsavíkur sem etja kappi og því höldum við tvö undankvöld og svo úrslitakvöld. Undankvöldin fara fram í Tjarnarborg Ólafsfirði 18. apríl og Laugarborg Eyjafjarðarsveit 19. apríl. Úrslitakvöldið fer svo fram í Hofi 25. apríl.“

Það er Menningarfélag Akureyrar sem stendur á bak við Fiðring með dyggum stuðningi SSNE, Barnamenningarsjóðs, Samfélagsjóðs Landsbankans, SBA og þátttökuskólanna allra.

„Nemendur á unglingastigi þátttökuskólanna hafa samið sitt eigið atriði og æft af kappi alla vorönnina undir handleiðslu leiðbeinanda og mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og lýðræðisleg vinnubrögð, hugmyndin og útfærslan kemur frá nemendum sjálfum. Einnig sér hópurinn alfarið um listræna útfærslu hvað varðar búninga, leikmynd, sviðhreyfingar, ljós og hljóð þannig að þátttaka í Fiðringi er heljarinnar skóli í sjálfu sér. Hápunkturinn er svo að hitta hin liðin og sýna afraksturinn á leiksviði með allri leikhústækninni og töfrunum,“ segir María. 

„Það verður spennandi að sjá og heyra hvað unga fólkinu okkar liggur á hjarta; hér fá þau tækifæri til að tjá það á skapandi hátt,“ segir María og hvetur fólk til að mæta og sjá sviðslistafólk framtíðarinnar.

Kynnar á úrslitakvöldinu eru Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason og Villi verður líka kynnir bæði undanúrslitakvöldin. Fiðringslagið verður flutt í dómarahléi á úrslitakvöldinu en í ár kusu nemendur Röddina í klettunum með Gugusar sem mætir á staðinn og skemmtir áhorfendum.

Hægt er að næla sér í miða á undankeppni Fiðrings fyrir 1.500 krónur á vef Menningarfélags Akureyrar – hér á fyrra kvöldið í Tjarnarborg og hér á það síðara í Laugarborg.

Miðasala á úrslitakvöldið hefst ekki fyrr en 24. apríl.

Frá úrslitakeppni Fiðrings í Hofi á síðasta ári. Ljósmynd: Sindri Swan